Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins segir að Ísraelum hafi tekist að koma sér upp stóru neti njósnara í íran sem þeir hafi getað nýtt sér til hins ítrasta þegar kom að því að gera árásir á landið á dögunum. Upplýsingarnar munu hafa verið notaðar til þess að ráða háttsetta embættismenn af dögum sem og vísindamenn sem unnu að kjarnorkuáætlun landsins. Þá var einnig ráðist að yfirmönnum í íranska byltingarverðinum.
Nú hafa stjórnvöld í Íran hafið ítarlega rannsókn á því hvernig ísraelum tókst að valda svo miklu tjóni sem raun ber vitni um, en gagnrýnendur klerkastjórnarinnar segja að hún sé með aðgerðunum að reyna að styrkja tök sín á þjóðfélaginu. Þannig sé verið að nota tækifærið og eyða gagnrýnisröddum í landinu með því að saka menn um landráð og um að hafa unnið með Ísrael.