Elon Musk kallaði hið „stóra og fallega“ fjárlagafrumvarp, eins og repúblikanar hafa kallað það, „viðurstyggilegan hrylling.“ Hann hefur einnig látið hafa það eftir sér að allir repúblikanar sem kjósi með því eigi að skammast sín en frumvarpið felur meðal annars í sér niðurfellingu ívilnana til framleiðenda rafmagnsbíla. Musk er eigandi Tesla, eins stærsta rafbílaframleiðanda heims.
Síðasta stráið
Donald Trump ræddi við blaðamenn í Hvíta húsinu í dag og þar sagðist hann ekki vera viss um að þeir gætu átt í góðu sambandi lengur.
„Mér hefur alltaf verið vel við Elon. Þið sáuð þessi orð hans um mig. Hann hefur ekkert sagt slæmt um mig. Ég vildi frekar að hann gagnrýndi mig heldur en frumvarpið því þetta frumvarp er magnað. Þetta er stærsti niðurskurður í sögu landsins,“ sagði Trump þegar hann var beðinn um að bregðast við ummælum Musk.
„Sjáiði til, við Elon áttum frábært samband. Ég er ekki viss um að við munum gera það héðan í frá,“ sagði Bandaríkjaforseti.
Kveðst mjög vonsvikinn
Líkt og fjallað hefur verið um undanfarna mánuði eru ítök Musk innan Repúblikanaflokksins mikil sem og vinsældir hans hjá stórum hluta kjósenda. Þingmenn flokksins standa því frammi fyrir því að feta þrönga slóð milli áhrifamannanna tveggja.
„Hann þekkti [frumvarpið] betur en nokkur maður og fann ekkert að því þangað til um leið og hann er farinn. Og ef þið lítið á það sem hann hefur sagt um mig, hann hefur sagt fallegustu hluti um mig og hefur ekkert sagt ljótt um mig persónulega, en ég er viss um að það er næst á dagskrá. Ég er mjög vonsvikinn út í Elon. Ég hef hjálpað Eloni mikið,“ segir Trump.