Erlent

Komu naum­lega í veg fyrir hryðjuverkaárás í Bret­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar framkvæmdu húsleit á þó nokkrum stöðum í Bretlandi um helgina.
Lögregluþjónar framkvæmdu húsleit á þó nokkrum stöðum í Bretlandi um helgina. Getty/Ryan Jenkinson

Breskir sérsveitarmenn og lögregluþjónar eru sagðir hafa í naumindum komið í veg fyrir hryðjuverkaárás á breskri grundu. Farið var í nokkur áhlaup um Bretland í um helgina, vegna tveggja mismunandi rannsókna, og voru átta menn handteknir. Þar af eru sjö frá Íran.

Talið er að mennirnir hafi ætlað sér að gera árás á bænahús gyðinga eða annað skotmark sem tengist gyðingum. Í grein Telegraph segir að talið sé að fyrir aðgerðir lögreglu hafi einungis klukkustundir verið í að árásin yrði gerð.

Fimm þeirra sem voru handteknir eru sagðir hafa skipulagt árás á tiltekinn stað, sem ekki hefur verið gefið upp nákvæmlega. Samkvæmt heimildum Telegraph er talið að um bænahús gyðinga sé að ræða. Mennirnir voru handteknir vegna gruns um að þeir væru að undirbúa hryðjuverk, samkvæmt lögreglunni.

Aðgerðir lögreglunnar fóru fram í Manchester, Lundúnum og Swindon.

Í kjölfarið voru þrír menn til viðbótar handteknir og var framkvæmd leit í þremur húsum í Lundúnum. Lögreglan segir þá aðgerð ekki tengjast þeirri fyrri en allir mennirnir þrír eru frá Íran.

Mennirnir hafa ekki verið ákærðir enn en lögreglan segir rannsóknina á frumstigi.

Frá höfuðstöðvum lögreglunnar í Lundúnum.AP/Kin Cheung

Ken McCallum, yfirmaður bresku leyniþjónustunnar MI5, varaði við því í fyrra að Rússar og Íranar ættu í sífellt fífldjarfari árásum og leyniaðgerðum. McCallum sagði klerkastjórnina í Íran leggja á ráðin um „ráðabrugg á eftir ráðabruggi“.

Varaði hann við því að yfirvöld í Rússlandi og Íran leituðu til glæpasamtaka og reyndu að fá glæpamenn til að fremja myrkraverk þeirra.

Eins og fram kemur í grein Sky News varaði Dan Jarvis, öryggismálaráðherra, nýverið á þingi sérstaklega við ógninni frá Íran.

Hér að neðan má sjá myndefni frá Sky og þar á meðal myndbönd frá handtökum sem tekin voru af vitnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×