Spáð er tíu til átján metrum á sekúndu eftir hádegi og rigningu, en hvassari í vindstrengjum á Suðausturlandi. Það verður hvöss sunnanátt á austurhelmingi landsins í kvöld, en norðlægari vindur á vestanverðu landinu, auk þess hríð á fjallvegum Vestfjarða.
Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir vegna norðan hríðar á Vestfjörðum frá klukkan 18 í kvöld til eitt í nótt og svo á Suðausturlandi vegna norðaustan vindstrengja milli 11 og 14 í dag og svo suðaustan hvassviðris eða storms milli klukkan 14 og 19.
Hvassast verður sunnan- og vestanundir Öræfajökli og má reikna með mjög snörpum vindhviðum þar. Vindur getur verið varasamur fyrir ökutæki, sér í lagi við Öræfajökul.
Hiti á landinu verður á bilinu fimm til til stig, en svalara á Vestfjörðum.
Suðvestan 8-15 á morgun, en heldur hvassara í vindstrengjum á Norðurlandi. Rigning eða slydda með köflum en þurrt norðaustanlands. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast norðaustanttl.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Suðvestanátt, víða á bilinu 8-13 m/s, en 13-18 í vindstrengjum á Norðurlandi. Dálítil rigning eða slydda og hiti 1 til 6 stig, en bjartviðri um landið norðaustanvert með hita að 10 stigum.
Á sunnudag: Breytileg átt 5-10. Stöku skúrir eða él vestantil, en léttskýjað austanlands. Hiti 2 til 7 stig, en nálægt frostmarki á norðvestanverðu landinu.
Á mánudag: Breytileg átt 5-10 og él eða skúrir. Gengur í norðvestan 5-13 síðdegis og léttir til sunnan heiða. Hiti kringum frostmark, en allt að 5 stigum sunnantil.
Á þriðjudag: Breytileg átt og víða þurrt, en stöku él vestast á landinu. Hiti um frostmark, en frostlaust við vesturströndina. Vaxandi austanátt um kvöldið og fer að rigna sunnanlands með hlýnandi veðri.
Á miðvikudag: Suðlæg átt með vætu, en rofar til norðanlands. Hiti 1 til 6 stig.
Á fimmtudag: Útlit fyrir suðlæga átt. Væta með köflum, en lengst af þurrt fyrir austan. Hiti 2 til 7 stig.