Enski boltinn

Nýr leik­maður Chelsea sagður vera besti Brassinn síðan Neymar kom fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Estevao Willian fagnar marki með Palmeiras í bikarleik á móti Botafogo.
Estevao Willian fagnar marki með Palmeiras í bikarleik á móti Botafogo. Getty/Marco Galvão/

Chelsea hefur keypt Estevao Willian frá brasilíska félaginu Palmeiras og það vantar ekki meðmælin úr herbúðum brasilíska félagsins.

Chelsea borgar til að byrja með 29 milljónir punda fyrir leikmanninn en svo bætast við bónusar eftir því hvernig hann stendur sig.

„Ég hef ekki séð svona leikmann áður,“ sagði Abel Ferreira, þjálfari Palmeiras eftir sigurleik í maí. Þessi virti þjálfari er ekki þekktur fyrir stórar yfirlýsingar en það var ljóst að hann hefur miklar mætur á stráknum. Breska ríkisútvarpið fjallar um strákinn.

Hinn sautján ára gamli Willian hafði þarna tryggt Palmeiras sigur á Botafogo á lokmínútunum í bikarleik félaganna og spilað frábærlega í leiknum.

Þessi vinstri vængmaður hefur vakið mikla athygli en Chelsea var í baráttu um hann við Bayern München, Paris Saint-Germain og Manchester City. Chelsea gæti á endanum þurft að borga 52 milljónir punda fyrir hann.

Hann kemur þó ekki á Stamford Bridge fyrr en eftir heimsmeistarakeppni félagsliða í júlí á næsta ári.

Brasilískir táningar eins og Vinicius Jr og Rodrygo hafa farið til Evrópu fyrir stórar upphæðir á síðustu árum. Það var þó talað um hvorugan þeirra eins og er talað um Estevao Willian.

Það er tilfinning manna í Brasilíu að þessi sveitastrákur frá Sao Paulo gæti verið sér á báti.

„Estevao er besti leikmaðurinn sem hefur komið frá Brasilíu síðan Neymar kom fram. Þegar þú horfir á hann spila þá verður þú strax ástfanginn,“ sagði Joao Paulo Sampaio, yfirmaður knattspyrnuakademíu Palmeiras.

„Hann hefur þegar hrifið alla með tækni sinni en eins og var með Neymar á sínum tíma þá á hann eftir að bæta við líkamlega þáttinn. Hann er ekki eins sterkur og Endrick og á því eftir langa leið á því sviði. Það er samt það sem fær fólk til að halda að þakið fyrr hann sé mjög hátt,“ sagði Sampaio.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×