„Þetta er stór áfangi, ekki bara fyrir okkur heldur allt Grænland. Við erum meira en stolt og ánægð og hlökkum til að taka á móti fyrstu farþegunum og viðskiptavinunum,“ segir forstjóri flugvallafélags Grænlands, Jens Lauridsen, í fréttatilkynningu.

Með opnun nýju flugstöðvarinnar flyst bæði innanlands- og millilandaflug úr gömlu flugstöðinni. Það þýðir að hér eftir þurfa allir brottfararfarþegar um Nuuk-flugvöll að fara í gegnum vopnaleit sem annars hefur ekki tíðkast í innanlandsflugi á Grænlandi.

Stærstu tímamótin verða þó síðar á árinu, eftir fimm mánuði, þann 28. nóvember 2024, þegar nýja flugbrautin verður opnuð í fullri lengd, 2.200 metra löng. Nuuk tekur þá við hlutverki Kangerlussuaq sem aðalflugvöllur Grænlendinga. Þar með verður hægt að hefja beint þotuflug milli langstærsta bæjar Grænlands og umheimsins.
Á þessu tölvugerða myndbandi geta lesendur ímyndað sér hvernig verður að fara um nýju flugstöðina. Áhugavert er að sjá að þar er gert ráð fyrir stórri þotu frá Icelandair: