Enski boltinn

Eig­andi Roma tryggir sér kaup­rétt á Everton

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dan Friedkin stýrir AS Roma ásamt syni sínum Ryan Friedkin.
Dan Friedkin stýrir AS Roma ásamt syni sínum Ryan Friedkin. Archivio Massimo Insabato/Mondadori Portfolio via Getty Images

Dan Friedkin, bandarískur eigandi og forseti ítalska félagsins Roma, hefur tryggt sér kauprétt á enska félaginu Everton. Kaupverð er talið vera um 400 milljónir punda.

Telegraph greinir frá. Leynilegar samningaviðræður hafa staðið yfir síðustu daga og eru á lokametrunum. Kaupin eru háð skilmálum stjórnar ensku úrvalsdeildarinnar en báðir aðilar eru bjartsýnir að geta gengið frá kaupunum.

Núverandi eigandi Everton, Farhad Moshiri, setti félagið til sölu á síðasta ári. Bandaríski fjárfestingahópurinn 777 Partners tryggði sér kauprétt og var langt komið með að ganga frá kaupum en hætti við þegar frekari upplýsingar um fjárhagsörðugleika félagsins komu í ljós og stig voru dregin frá Everton á tímabilinu.

Kauprétturinn hefur nú færst til Friedkin sem er staðráðinn í að ganga frá kaupunum og rétta úr erfiðleikum Everton. Hann keypti Roma árið 2020 fyrir um 500 milljónir punda. Félagið tapaði þá um 2 milljónum punda árlega en tekist hefur að koma stöðugleika á fjármálin og Roma vann Sambandsdeild Evrópu aðeins tveimur árum síðar.

Uppsett verð er talið vera um 400 milljónir punda, ekki hefur komið fram hversu lengi kauprétturinn gildir. Fari svo að Friedkin festi kaup verður hans fyrsta verkefni að tækla bága fjárhagsstöðu félagsins og klára uppbyggingu á nýjum heimavelli Everton við Bramley Moore höfnina í Liverpool.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×