Erlent

Óttast að á­rásar­maðurinn flýi land

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Gæsluvarðhald yfir hinum ákærða hefur verið framlengt til fjórða júlí næstkomandi.
Gæsluvarðhald yfir hinum ákærða hefur verið framlengt til fjórða júlí næstkomandi. Ritzau/Thomas Traasdahl

Dómari í héraðsdómi Kaupmannahöfn hefur ákveðið að framlengja gæsluvarðhald yfir manninum sem ákærður er fyrir að hafa veist að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, þann sjöunda júní síðastliðinn um tvær vikur. Dómari segist óttast að hann muni flýja land.

Ríkisútvarp Danmerkur greinir frá þessu. Maðurinn er 39 ára gamall og pólskur.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa kýlt forsætisráðherrann í hægri handlegginn með þeim afleiðingum að hún missti jafnvægið og féll. Þetta athæfi mannsins flokkast undir ofbeldi gagnvart embættismanni að því er kemur fram í ákærunni.

Maðurinn er sagður hafa verið vel við skál og lögregla telur ekki að árásin hafi átt sér pólitískar rætur.

„Hann man ekkert sérstakt um atvikið vegna þess að hann var mjög ölvaður. En hann man eftir því að hann hitti forsætisráðherrann og að það hafi verið á Kolatorginu,“ hefur danska ríkisútvarpið eftir Henrik Karl Nielsen verjanda hins ákærða.

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur rætt við vinnuveitanda ákærða, foreldra hans og yfirmann ásamt því að rekja allar ferðir hans yfir daginn sem árásin átti sér stað. Við rannsókn kom einnig fram að hinn ákærði hefur áður verið sektaður í sambandi við innbrotsmál. Þar að auki á hann fjórar ákærur á baki sér fyrir blygðunarsemisbrot.

Forsætisráðherrann verður yfirheyrður þann þrettánda júní næstkomandi í sambandi við málið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×