Enski boltinn

Segja að Ten Hag verði rekinn sama hvernig úr­slita­leikurinn fer

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, á æfingu fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Manchester City á laugardaginn.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, á æfingu fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Manchester City á laugardaginn. getty/Ash Donelon

Samkvæmt heimildum the Guardian verður Erik ten Hag rekinn sem knattspyrnustjóri Manchester United, sama hvernig bikarúrslitaleikurinn gegn Manchester City á morgun fer.

Hinn hollenski Ten Hag hlýtur þau sömu örlög og landi sinn, Louis van Gaal, fyrir átta árum. Hann var rekinn eftir bikarúrslitaleik gegn Crystal Palace sem United vann, 2-1.

The Guardian greinir frá því að Sir Jim Ratcliffe og félagar hans í Ineos hafi ákveðið að láta Ten Hag fara og sigur í bikarúrslitaleiknum á morgun muni engu breyta þar um.

Ten Hag tók við United fyrir síðasta tímabil. Í fyrra lenti liðið í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og vann deildabikarinn. United komst einnig í bikarúrslitaleikinn þar sem liðið tapaði fyrir City, 2-1.

Á þessu tímabili endaði United hins vegar í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar sem er versti árangur liðsins síðan 1990. Rauðu djöflarnir eiga möguleika á að vinna titil en jafnvel þótt það gerist mun það líklega ekki bjarga starfinu hjá Ten Hag.

Ýmsir hafa verið orðaðir við stjórastarfið hjá United, meðal annars Thomas Tuchel, Mauricio Pochettino og Kieran McKenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×