Ómögulegt hefur verið að sækja um hlutdeildarlán hjá HMS síðan í mars. Miðað er að því að sex úthlutanir fari fram frá 1. janúar til 30. júní og gert ráð fyrir einu úthlutunartímabili í hverjum mánuði.
Hlutdeildarlán eru hugsuð fyrir fyrstu kaupendur eða tekjulága og stendur þeim til boða að fá allt að 20 prósent kaupverðs í íbúð lánuð hjá HMS. Aðstoðarforstjóri stofnunarinnar sagði í viðtali í byrjun apríl að búið væri að lána það fé sem hún hefði til umráða. Sagði hún þá óvíst hvenær næsta úthlutun yrði en það yrði í apríl.
En ekkert varð úr því. Þetta hefur komið mörgum illa, þar á meðal ungri fjölskyldu sem hafði samband við fréttastofu. Sú fékk staðfest kauptilboð í íbúð í lok mars og gerði ráð fyrir að geta sótt um hlutdeildarlán í apríl. Enn hefur ekki opnað fyrir umsóknir síðan kauptilboðið var samþykkt og þau fylgst vel með, sent tölvupósta og hringt nánast daglega.
Fyrstu svör voru að opnað yrði aftur fyrir umsóknir eftir páska, svo breyttust svörin í „á næstu vikum“ og nú eru svörin þau að það sé ófyrirséð hvenær tekið verði aftur á móti umsóknum sökum fjárskorts. Tíminn er nú á þrotum fyrir fjölskylduna og íbúðina á nú að setja aftur á sölu.
„Við getum voðalega lítið brugðist við. Heimildirnar okkar eru á þrotum og við verðum að bíða,“ segir Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
HMS fær þrjá milljarða á ári til að úthluta í hlutdeildarlán, sem kláruðust strax í mars. Ekki verður opnað aftur fyrir úthlutanir fyrr en frumvarp til fjáraukalaga verður samþykkt, vonandi á næstu vikum, og stofnuninni tryggður milljarður í viðbót.
Hvers vegna heldurðu að þetta hafi klárast svona fljótt núna?
„Eftirspurnin var meiri núna en við bjuggumst við. Ég held að það sé vegna þess að þetta er gott úrræði. Það er að virka vel og hjálpa ungu fólki og efnaminni að komast inn á fasteignamarkaðinn. Nú hafa verið keypt 840 heimili með þessum lánum og þetta er að reynast vel,“ segir Anna.