Enski boltinn

Harry Maguire missir af bikar­úr­slita­leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Maguire missir af mikilvægum leik með Manchester United um helgina.
Harry Maguire missir af mikilvægum leik með Manchester United um helgina. Getty/James Gill

Manchester United verður án enska landsliðsmiðvarðarins Harry Maguire í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar á Wembley um helgina.

Erik ten Hag knattspyrnustjóri Manchester United, staðfesti það á blaðamannafundi fyrir leikinn að Maguire sé ekki orðinn af góður af meiðslunum.

Maguire hefur ekki spilað með United síðan 27. apríl. Hann tognaði á vöðva á æfingu.

„Harry verður ekki í boði á laugardaginn. Hann hefur ekki náð sér eins fljótt af meiðslunum og við vonuðumst til,“ sagði Erik ten Hag.

Mason Mount, Victor Lindelöf og Anthony Martial eru aftur á móti allir leikfærir.

„Við munum taka lokaákvörðun um þá á föstudaginn,“ sagði Ten Hag.

„Þetta snýst allt um titla og við eigum góðan möguleika á því að vinna einn slíkan. Það hafa ekki verið margir bikarar sem hafa komið hingað á síðustu tíu árum en nú getum við unnið okkar annan bikar á tveimur árum,“ sagði Ten Hag.

Manchester City getur enn á ný skrifað nýjan kafla í söguna en ekkert félag hefur unnið bæði deild og bikar tvö ár í röð.

Leikurinn hefst klukkan 14.00 á laugardaginn og er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×