Íslenski boltinn

KA dæmt til að greiða Arnari tæpar ellefu milljónir

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arnar hafði betur í Héraðsdómi Norðurlands eystra og á rétt á tæplega níu milljónum frá KA vegna málsins.
Arnar hafði betur í Héraðsdómi Norðurlands eystra og á rétt á tæplega níu milljónum frá KA vegna málsins. Vísir/Hulda Margrét

Knattspyrnufélag Akureyrar þarf að greiða Arnari Grétarssyni, fyrrverandi þjálfara meistaraflokks karla, ellefu milljónir króna. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Norðurlands eystra sem kveðinn var upp í dag. 

Arnar krafðist greiðslunnar og höfðaði mál vegna árangurs KA í Sambandsdeild Evrópu sumarið 2023 en hann yfirgaf félagið seint á leiktíðinni 2022. Samkvæmt samningi Arnars átti hann rétt á ákveðnu hlutfalli Evróputekna KA á meðan hann stýrði liðinu en undir hans stjórn lenti liðið í Evrópusæti sumarið 2022 og tók því þátt í Sambandsdeildinni árið eftir.

Tekjur KA urðu umtalsverðar sumarið 2023 þegar liðið komst alla leið í þriðju umferð í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Sneri ágreiningurinn að því hversu mikið tilkall Arnars væri til fjárins sem félagið vann sér inn eftir að hann hafði hætt störfum hjá félaginu.

Dómsorð voru birt á 433.is en samkvæmt þeim er KA skylt að greiða Arnari 8.779.998 krónur auk dráttarvaxta frá 5. nóvember 2023. Þá skal KA greiða tvær milljónir króna í málskostnað.

Ekki liggur fyrir hvort KA hyggist áfrýja málinu en ekki náðist í Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, við vinnslu fréttarinnar.

Arnar vildi ekki tjá sig um málið við Vísi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×