Íslenski boltinn

„Held að Katla mín fyrir­gefi mér þetta al­veg“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Nadía Atladóttir fagnar marki sínu í kvöld.
Nadía Atladóttir fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/Pawel

Nadía Atladóttir skoraði fyrir Val í dag þegar liðið vann 7-2 sigur á henni gamla liði Víkingum. Nadía sagði að hausinn hefði verið vel skrúfaður á fyrir leikinn og sagðist alltaf fagna sínum mörkum.

„Tilfinningin er mjög góð, þrír leikir og þrír sigrar og markmiðinu náð fyrir þessa þrjá fyrstu leiki í deildinni,“ sagði Nadía í viðtali beint eftir leik. Hún sagðist ekki hafa átt von á svona stórum sigri á sínu gamla félagi í dag.

„Alls ekki. Þær eru hörkugóðar og vel spilandi. Þær eru bara gott lið þannig að ég var ekki að búast við þessu. En ég vissi samt að við myndum vinna,“ sagði Nadía kokhraust.

Félagaskipti hennar rétt fyrir upphaf keppnistímabilsins vöktu töluverða athygli. Hún sagði tilfinninguna hafa verið góða fyrir leikinn.

„Hausinn var vel skrúfaður á. Ég er alltaf tilbúinn að koma inn á eins og hefur verið í síðustu leikjum. Þetta var ekkert öðruvísi í dag,“ en Nadía kom inn sem varamaður í leiknum og skoraði aðeins örfáum mínútum síðar. Hún fagnaði markinu gegn sínu gamla félagi en nú til dags halda leikmenn oftar en ekki aftur af sér ef þeir skora gegn liði sem þeir hafa áður leikið með.

„Maður á alltaf að fagna marki finnst mér að minnsta kosti. Þetta var góð tilfinning og að skora með skalla er alltaf gaman.“

Hún sagðist ekki búast við neinum skotum frá Víkingum vegna marksins.

„Ég held að Katla mín (markvörður Víkinga) fyrirgefi mér þetta alveg. Þetta var bara geggjað,“ og Nadía bætti við að hún ætti ekki von á neinum skotum frá Víkingum eftir markið.

„Nei er það nokkuð? Það eru bara hlýir straumar frá mér til Víkinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×