Leikmaðurinn sem um ræðir heitir Moutaz Neffati og er 19 ára gamall miðjumaður og hægri kantmaður. Hann kemur á lánssamningi frá Íslendingaliði Norrköping út júní með möguleika á framlenginu á þeim samningi.
KR tæklar þannig meiðslavandræði félagsins en leikmenn liðsins hafa hrokkið úr skaftinu hver af öðrum í upphafi móts. Í fyrsta leik fóru bæði Aron Sigurðarson og Hrafn Tómasson meiddir af velli. Hrafn er frá út leiktíðina en einhverjar vikur í Aron.
Theódór Elmar Bjarnason og Jóhannes Kristinn Bjarnason meiddust báðir gegn Fram í síðasta leik, sá síðarnefndi frá í þrjá mánuði hið minnsta en meiðsli Elmars léttvægari.
Luke Rae fór meiddur af velli í bikarleik gærkvöldsins við KÁ, en hann skoraði þar tvö mörk í 9-2 sigri.
Atli Sigurjónsson hefur þá verið meiddur í nánast allan vetur en hefur spilað án vandræða í upphafi móts og Benóný Breki Andrésson var meiddur í upphafi móts.
Næsti leikur KR er við Breiðablik að Meistaravöllum um helgina.