Íslenski boltinn

Gummi Ben: Hann fær boltann í lærið Jóhann Ingi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Freyr Elísson skilur ekki hvernig Jóhann Ingi Jónsson dómari gat dæmt á hann hendi.
Alex Freyr Elísson skilur ekki hvernig Jóhann Ingi Jónsson dómari gat dæmt á hann hendi. S2 Sport

Framarar héldu að þeir hefðu komist í 1-0 á móti Íslandsmeisturum Víkings í Bestu deildinni í gær en markið var dæmt af. Guðmundur Benediktsson og sérfræðingar hans fóru yfir þennan umdeilda dóm í Stúkunni í gærkvöldi.

„Áður en ég tala við ykkur um þetta þá ætlum við að fara í þetta mark sem var dæmt af Frömurum hér á elleftu mínútu,“ sagði Guðmundur í Stúkunni í gær. Víkingur vann leikinn á endanum 1-0.

„Hér er Fred með hornspyrnuna, Alex Freyr [Elísson] er á fjærstönginni. Hann fær boltann í lærið, Jóhann Ingi. Hann fær boltann í lærið og potar honum yfir línuna. Það er ekki möguleiki að dómarinn hafi séð hendi. Stækkum þetta aðeins upp fyrir alla,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur sýndi ekki aðeins markið úr upptökuvélum Stöðvar 2 Sport heldur var hann einnig með upptöku hinum megin frá.

Sjáið viðbrögð Víkinga

„Þeir sem eru ekki sannfærðir eftir þetta þá getum við boðið upp á meira. Sjáið þið hvað hann [Alex] er hissa og sjáið viðbrögð Víkinga,“ sagði Guðmundur.

„Við förum hinum megin og þar sést enn betur að boltinn fer aldrei í höndina á Alex Frey. Ég held að Pablo sé fyrir Jóhanni Inga,“ sagði Guðmundur.

„Alltaf er það Pablo sem er að beita einhverjum brögðum,“ skaut Albert Ingason inn í.

„Pablo er leikbreytir,“ sagði Guðmundur.

Ofsjónir er kannski ekki rétta orðið

„Mér finnst allt í lagi að gera mistök en þú átt ekki að sjá ofsjónir. Ofsjónir er kannski ekki rétta orðið. Þú átt ekki að sjá hendi ef boltinn fer ekki í höndina,“ sagði Guðmundur.

Hér fyrir neðan má sjá Guðmund ræða þetta ógilda mark við sérfræðinga sína Albert Brynjar Ingason og Lárus Orra Sigurðsson.

Klippa: Stúkan fór yfir markið sem var dæmt af Fram



Fleiri fréttir

Sjá meira


×