Erlent

Ísraels­her dregur úr við­veru sinni á sunnan­verðu Gasa

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Meira en milljón manns dvelja í frumstæðum tjaldbúðum við borgarmörk Röfu.
Meira en milljón manns dvelja í frumstæðum tjaldbúðum við borgarmörk Röfu. AP/Atem Ali

Ísraelski herinn hefur minnkað viðveru sína á sunnanverðu Gasasvæðinu og er þar aðeins eitt stórfylki. Stórfylki er herdeild sem almennt er samsett úr nokkrum þúsunda hermanna.

Talsmaður ísraelska hersins staðfesti þetta í samtali við Guardian. Þessi talsmaður veitti engar frekari upplýsingar og því er óljóst hvort þessi brottflutning feli í sér að fyrirætlaðri árás Ísraelsmanna á landamæraborgina Rafa verði frestað. Í Rafa dvelja meira en milljón manns sem flúið hafa heimili sín undan átökum Ísraela og Hamasliða.

Hvíta húsið styddi ekki áhlaup

Hvíta húsið hafði áður gefið út að það myndi ekki styðja við bakið á Ísraelum í ætlaðri árás sinni á Rafah án þess að Ísraelar kynni hnitmiðaða ferla til að tryggja öryggi palestínskra borgara. Rafa er sögð síðasta sterka vígi Hamasliða í Gasa.

Fleiri en 33 þúsund Palestínumanna hafa látið lífið í átökunum og tæplega 76 þúsund særst, samkvæmt nýjustu tölum heilbrigðiseftirlitsins á svæðinu. Átökin hófust 7. október með stórtæku áhlaupi Hamasliða inn í Ísrael fyrir akkúrat hálfu ári í dag. Flest hinna látnu og særðu eru konur og börn og talið er að þúsundir fleiri séu ótaldir í rústum borga Gasasvæðisins.

Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna birti færslu á samfélagsmiðilinn X, áður Twitter, til að minnast dagsins og allra þeirra sem eru eru á vergangi átakanna vegna.

„Um 1,7 milljón manns hefur verið neydd til að yfirgefa heimili sín. Frá upphafi stríðsins hafa aðstöður Flóttamannaaðstoðarinnar veitt þúsundum fjölskylda sem hafa í engin önnur hús að venda öryggi,“ skrifar Flóttamannaaðstoðin.

Gert er ráð fyrir hungursneyð á norðanverðu Gasasvæðinu og kemur fram í skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna frá í síðasta mánuði að hlutfall Palestínumanna sem standa frammi fyrir „katastrófískri“ neyð hafi tvöfaldast síðan í desember.


Tengdar fréttir

Biden krefst tafarlauss vopnahlés

Joe Biden Bandaríkjaforseti krafðist tafarlauss vopnahlés í símtali við Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels í dag. Hann sagði einnig að stuðningur Bandaríkjanna við aðgerðir Ísraelsmanna væri skilyrtur af því að gripið væri til alvöru aðgerða til að verja borgara og hjálparstarfsfólk á Gasasvæðinu.

Íranar hóta hefndum gegn Ísrael

Klerkastjórnin í Íran og vígahópar á snærum þeirra hafa hótað hefndum eftir loftárás á ræðismannsskrifstofu Íran í Damaskus í Sýrlandi í gær. Ísraelar hafa verið bendlaðir við árásina en í henni féllu háttsettur íranskur herforingi og sex aðrir hermenn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×