Erlent

Tugir þúsunda mót­mæla Orbán í Búda­pest

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Viktor Orbán hefur verið forsætisráðherra Ungverjalands í fjórtán ár.
Viktor Orbán hefur verið forsætisráðherra Ungverjalands í fjórtán ár. AP/Justin Spike

Tugir þúsunda mótmæla ríkisstjórn Viktors Orbán í miðbæ Búdapest, höfuðborgar Ungverjalands. Mótmælendur marséruðu að þinghúsinu og kölluðu „Við erum ekki hrædd“ og „Segðu af þér, Orbán!“

Guardian greinir frá því að margir mótmælendanna báru ungverska fána eða klæddu sig í þjóðarlitunum, rauðum, hvítum og grænum. Litir sem Fidesz, flokkurinn sem Orbán fer fyrir hefur nýtt sér í kosningaherferðum undanfarna tvo áratugi.

„Þetta eru þjóðlitir Ungverjalands, ekki ríkisstjórnarinnar,“ hefur Guardian eftir hinni 24 ára gömlu Lejlu sem ferðaðist til Búdapest frá Sopron, bæ við landamæri Ungverjalands og Austurríkis.

Í farabroddi marséringarinnar fór hinn 43 ára gamli Péter Magyar sem var áður giftur dómsmálaráðherra Orbán, henni Judit Varga. Hann stefnir á að stofna sinn eigin flokk.

Þrír mótmælendur sem ræddu við fréttamann Reuters sögðust laðast að Magyar því hann hefði starfað náið með ríkisstjórn Orbán og byggi yfir innherjaþekkingu á starfi hennar.

„Við vissum að það væri spilling, en hann segir það sem innherji og það staðfesti það fyrir okkur,“ hefur Reuters eftir einum mótmælendanum sem hefur áhyggjur af mennta- og heilbrigðiskerfi landsins ásamt spillingunni. Hún segist trúa á að verði gerðar breytingar.

Magyar varð þjóðþekktur í Ungverjalandi í febrúar síðastliðnum þegar hann sakaði ráðherrann Antal Rogán um að stýra umfangsmikilli „áróðursvél“ ríkisstjórnarinnar. Hann birti einnig upptöku af samtali hans og fyrrverandi eiginkonu sinnar þar sem hún greindi frá tilraun aðstoðarmanns hátt setts ráðherra til að hafa áhrif á niðurstöður spillingarmáls.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×