Erlent

Tólf ára á­rásar­maðurinn segist sjá eftir gjörðum sínum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Tólf ára drengur var skotinn til bana og tvær tólf ára stúlkur særðust alvarlega.
Tólf ára drengur var skotinn til bana og tvær tólf ára stúlkur særðust alvarlega. AP/Roni Rekomaa

Tólf ára árásarmaðurinn sem hóf skothríð í grunnskóla í Vantaa í Finnlandi á þriðjudaginn segist sjá eftir gjörðum sínum. Lögregla yfirheyrði hann í gær og mun yfirheyrsla halda áfram ótímabundið.

Á meðan yfirheyrslu stóð gaf drengurinn í skyn að hann hafi verið lagður í einelti í skólanum og telur lögreglan það mögulega orsök árásarinnar sem dró annan tólf ára dreng til bana. Einnig særðust tvær tólf ára stúlkur alvarlega. Samkvæmt heimldum finnska miðilsins MTV Uutiset öskraði árasarmaðurinn um einelti á meðan árásinni stóð. Drengurinn hafði nýlega skipt um skóla og hóf göngu sína þar sem árásin átti sér stað eftir áramót.

Í umfjöllun þeirra er einnig greint frá því að samkvæmt lögreglu hafi verknaðurinn verið fyrirfram áætlaður og skipulagður. Lögregluyfirvöld hafa ekki greint frá því hve lengi hann hafði þessar áætlanir en það er vitað að drengurinn hafi skipulagt árásina fyrir páskafrí.

Erfitt að segja til um hvort hann skilji

Vopnið sem notað var marghleypt skammbyssa og Kimmo Hyvärinen yfirlögregluþjónn sagði í viðtali við finnskan miðil að einhver hljóti að hafa kennt honum að beita slíku vopni því ólíklegt er að hann hafi getað beitt því æfingarlaust. Hann bar einnig andlitsgrímu og heyrnarvernd að sögn lögreglunnar.

„Drengurinn sagði í yfirheyrslu að hann sá eftir verknaðinum og baðst fyrirgefningar. Þegar slík mál varða börn er erfitt að segja til um hvort hann raunverulega skilji það sem hann hefur gert og afleiðingar þess,“ sagði Kimmo.

Drengnum hefur ekki verið leyft að hitta fjölskyldu sína. Endurfundir hans og foreldra sinna verða leyfðir eftir að búið er að yfirheyra þau líka.


Tengdar fréttir

Ein­elti sagt á­stæða á­rásarinnar

Tólf ára barnið sem grunað er um skotárásina í grunnskóla í Vantaa í Finnlandi í gær hafði einungis verið nemandi í skólanum í ellefu vikur. Ástæða árásarinnar er sögð vera einelti sem nemandinn hafði sætt.

Flaggað í hálfa stöng eftir skot­á­rásina

Flaggað verður í hálfa stöng við allar opinberar byggingar og stofnanir í Finnlandi í dag vegna skotárásarinnar í grunnskóla í Vantaa í gær. Tólf ára drengur lét lífið og tvær stúlkur særðust þar í árás tólf ára barns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×