Erlent

Átta ára stúlka sú eina sem lifði rútuslys af

Samúel Karl Ólason skrifar
Rútan féll fimmtíu metra og kviknaði mikill eldur þegar hún lenti.
Rútan féll fimmtíu metra og kviknaði mikill eldur þegar hún lenti. Yfirvöld í Limpopo héraði í Suður-Afríku

Átta ára stúlka var sú eina af 46 manns sem lifið af þegar rúta féll af brú í Suður-Afríku í dag. Rútan féll úr töluverðri hæð og kviknaði eldur í henni þegar hún lenti. Stúlkan var flutt á sjúkrahús og er sögð í alvarlegu ástandi.

Rútan var skráð í Botsvana en þjóðerni þeirra sem dóu liggur ekki fyrir. Mörg lík eru sögð mikið brunnin og gæti reynst erfitt að bera kennsl á þau.

Yfirvöld í Suður-Afríku segja talið að bílstjórinn hafi misst stjórn á rútunni og hún hafi farið fram af brúnni og fallið um fimmtíu metra til jarðar.

Sindisiwe Chikunga, samgönguráðherra Suður-Afríku, hefur heitið ítarlegri rannsókn á slysinu.

Í frétt Guardian segir að þó innviðir í Suður-Afríku séu með þeim mest þróuðu í Afríku sé umferðaröryggi í landinu ekki til fyrirmyndar. Fjöldi þeirra sem deyja í umferðinni sé meðal þeirra hæstu í heimsálfunni.

Nokkrum klukkustundum áður en slysið varð hafði Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, beðið fólk um að fara varlega í páskaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×