Enski boltinn

Jóhann Berg og fé­lagar misstu niður tveggja marka for­ystu í London

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lærisveinar Vincent Kompany hjá Burnley voru mjög nálægt sigri í dag sem hefði gefið þeim smá von í fallbaráttunni.
Lærisveinar Vincent Kompany hjá Burnley voru mjög nálægt sigri í dag sem hefði gefið þeim smá von í fallbaráttunni. Getty/Justin Setterfield

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley voru í frábærri stöðu í London í ensku úrvalsdeildinni en misstu frá sér sigurinn í seinni hálfleik.

Burnley heimsótti West Ham og varð að sætta sig við 2-2 jafntefli eftir að hafa komist í 2-0 í fyrri hálfleik.

Brighton & Hove Albion vann 1-0 heimasigur á Nottingham Forest á sama tíma sem voru úrslit sem voru góð fyrir Burnley.

Burnley hefði getað komist upp í sextán stig með sigri en liðið er nú tíu stigum frá öruggu sæti. Forest situr einmitt í því sæti. Útlitið er því mjög dökkt fyrir Burnley en liðið varð helst að vinna í dag til að eiga einhvern möguleika.

Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður í stöðunni 2-2 í uppbótartíma.

Burnley komst tveimur mörkum yfir í hálfleik. Fyrra markið skoraði David Datro Fofana strax á ellefu mínútu leiksins. Hann hafði heppnina með sér og fékk boltann aftur frá varnarmanni.

Seinna markið var sjálfsmark í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Konstantinos Mavropanos sendi boltann í eigið mark eftir fyrirgjöf frá Josh Cullen.

Lucas Paqueta minnkaði muninn fyrir West Ham á 47. mínútu og kom liðinu aftir inn í leikinn.

Danny Ings kom inn á sem varamaður á 82. mínútu og hélt að hann væru búinn að jafna metin aðeins fjórum mínútum siðar. Markið var hins vegar dæmt af í Varsjánni.

Ings var þó ekki hættur og hann jafnaði metin í uppbótartímanum eftir fyrirgjöf frá Mohammed Kudus.

Eina markið í leik Brighton og Nottingham Forest var sjálfsmark Andrew Omobamidele á 30. mínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×