Enski boltinn

Ratcliffe vill byggja nýjan leik­vang fyrir Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Jim Ratcliffe er orðinn einn af eigendum Manchester United og hann vill gjörbylta Old Trafford svæðinu.
Sir Jim Ratcliffe er orðinn einn af eigendum Manchester United og hann vill gjörbylta Old Trafford svæðinu. Getty/Peter Byrne

Sir Jim Ratcliffe, nýjasti eignandi Manchester United, hefur sett það í forgang að gjörbylta heimavelli félagsins og það gæti þýtt að liðið yfirgefi Old Trafford í næstu framtíð.

ESPN hefur heimildir fyrir því að Íslandsvinurinn Ratcliffe vilji ekki endurnýja Old Trafford heldur frekar byggja nýjan leikvang við hliðina.

Manchester United hefur sett saman starfshóp um framtíð heimavallar Manchester United og einn af meðlimum hans er Gary Neville. Formaður starfshópsins er frjálsíþróttamógullinn Sebastian Coe.

Ratcliffe hefur verið í samskiptum við Andy Burnham, borgarstjóra Manchester en þeir hafa rætt þau framtíðarplön að blása nýju lífi í svæðið í kringum Old Trafford. Þar gætu risið hótel, veitingastaðahverfi og íbúðir.

Samkvæmt fyrrnefndum heimildarmönnum þá vill Ratcliffe berjast fyrir því að byggja nýjan níutíu þúsund manna leikvang sem verður einhvers konar Wembley norðursins. Þar gætu farið landsleikir og stórleikir sem Wembley hefur vanalega einokað á Englandi.

„Við höfum ekki leikvang á við Wembley, Nývang eða Bernabeu. Við munum ekki getað breytt því einir. Norðvesturhluti Englands er með fleiri risastóra fótboltaklúbba heldur en nokkur annar staður í heimunum og við eigum ekki slíkan völl.,“ sagði Jim Ratcliffe þegar hann kynnti nýja starfshópinn.

Manchester United hefur verið á Old Trafford síðan 1910 og Ratcliffe, stuðningsmaður félagsins alla ævi, vill alls ekki flytja í burtu af svæðinu.

Að byggja nýjan leikvang gæti aftur á móti kostað allt að tveimur milljörðum punda, 352 milljörðum íslenskra króna og það kallar á utanaðkomandi fjármagn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×