Íslenski boltinn

Dómarinn hné niður í fyrsta sigri Þróttar

Sindri Sverrisson skrifar
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir og stöllur í Þrótti fögnuðu flottum sigri í Víkinni. Gera þurfti hlé undir lok leiks þegar dómarinn hné niður.
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir og stöllur í Þrótti fögnuðu flottum sigri í Víkinni. Gera þurfti hlé undir lok leiks þegar dómarinn hné niður.

Óvenjulegt atvik varð undir lok Reykjavíkurslags Víkings og Þróttar í kvöld, í Lengjubikar kvenna í fótbolta, þegar gera þurfti hlé á leiknum eftir að dómari hné niður. Hann kláraði þó leikinn.

Þróttarar unnu sinn fyrsta sigur, í fjórða leiknum, í riðli 2 í A-deildinni en lokatölur í Víkinni urðu 5-2.

Hin bandaríska Sierra Lelii skoraði tvö marka Þróttar, það fyrra úr víti á 14. mínútu en staðan var 1-0 í hálfleik.

Freyja Stefánsdóttir jafnaði metin snemma í seinni hálfleik en Kristrún Rut Antonsdóttir og Brynja Rán Knudsen komu Þrótti í 3-1. Birta Birgisdóttir minnkaði muninn á ný en Lelii og Caroline Murray innsigluðu sigur Þróttara.

Undir lok leiksins varð hins vegar nokkurt hlé á leiknum en sjá mátti í útsendingu Víkinga frá leiknum að dómarinn Ásmundur Þór Sveinsson hné niður, þó með fulla meðvitund. Nokkuð óhugnanlegt og um tíma leit út fyrir að leikurinn yrði flautaður af en Ásmundur harkaði að lokum að sér og kláraði leikinn, og mun hafa verið um bakmeiðsli að ræða.

Þrátt fyrir sigurinn er Þróttur næstneðst í riðlinum með fjögur stig en Víkingur er með sex stig. Þór/KA og FH eru efst og mætast á morgun, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×