Enski boltinn

Eig­andi Newcastle segir að Bruce hafi ekki viljað mæta í vinnuna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steve Bruce á hliðarlínunni í eina leiknum sem hann stýrði Newcastle United í eftir kaup Sádi-Arabanna á félaginu.
Steve Bruce á hliðarlínunni í eina leiknum sem hann stýrði Newcastle United í eftir kaup Sádi-Arabanna á félaginu. getty/Tom Jenkins

Amanda Staveley, einn af eigendum Newcastle United, hefur lýst ástandinu hjá félaginu áður en Sádi-Arabarnir keyptu það. Hún segir að knattspyrnustjóri Newcastle hafi ekki einu sinni viljað mæta í vinnuna.

Nýir eigendur keyptu Newcastle af Mike Ashley í október 2021. Steve Bruce var þá stjóri Newcastle. Hann entist ekki lengi í starfi og var rekinn þrettán dögum eftir yfirtökuna. Bruce stýrði Newcastle aðeins í einum leik eftir að Sádi-Arabarnir keyptu félagið, í 2-3 tapi fyrir Tottenham. Það var jafnframt þúsundasti leikur hans á stjóraferlinum.

Staveley ber Bruce ekkert sérstaklega vel söguna og segir að hann hafi verið tregur til að mæta í vinnuna í aðdraganda yfirtökunnar.

„Það þurfti að gera stórar breytingar því félagið hafði verið rekið á annan hátt,“ sagði Staveley.

„Við höfðum litlar auglýsingatekjur, gamalt lið, reiða stuðningsmenn og stjóra sem vildi eiginlega ekki mæta í vinnuna. Við þurftum að blása lífi í félagið.“

Eddie Howe var ráðinn stjóri Newcastle eftir að Bruce var rekinn. Hann hefur náð mjög góðum árangri með liðið og kom því meðal annars í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×