Erlent

Fyrstu mannslátin vegna á­rása Húta á Rauða­hafi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Slökkviliðsmenn úr indverska sjóhernum bregðast við eldsvoða á skipi merkti Líberíu. Eldurinn virtist til kominn vegna loftárásar Húta.
Slökkviliðsmenn úr indverska sjóhernum bregðast við eldsvoða á skipi merkti Líberíu. Eldurinn virtist til kominn vegna loftárásar Húta. AP

Tveir áhafnarmeðlimir flutningaskipsins True Confidence létu lífið í eldflaugaárás Húta undan ströndum Jemen í dag. Um ræðir fyrstu mannslátin frá því að hersveitir Húta hófu að gera árásir á flutningaskip sem sigla um Rauðahafið. 

Flugskeyti Húta er sagt hafa hæft skipið, sem sigldi undir fána Barbados, á tíunda tímanum í morgun að staðartíma. Samkvæmt upplýsingum frá bandarískum yfirvöldum hefur það síðan verið á reki um Adenflóa. 

Árásin er ein af fjölmörgum sem Hútar hafa gert á skip sem sigla um Rauðahafið en er sú fyrsta sem áhafnarmeðlimur á skipinu lætur lífið. Með árásunum segjast Hútar aðstoða Palestínumenn í baráttunni gegn Ísraelsher.

Talsmaður Húta sagði í yfirlýsingu að áhöfn skipsins hefði hundsað ítrekaðar viðvaranir frá hersveitum Húta áður en þeir hæfðu skipið. 

BBC hefur eftir breska sendiráðinu í Jemen að að mannslátin séu sorgleg en óhjákvæmileg afleiðing linnulausra eldflaugaárása á flutningaskip. Þá hefur CBS eftir embættismanni Bandaríkjahers að sex hefðu særst í árásinni. 

Árásin átti sér stað í Adenflóa, um fimmtíu sjómílum suðvestan jemensku borgarinnar Aden. Í Adenflóa hafa Hútar gert umfangsmiklar árásir síðustu vikur en á laugardag bárust fréttir um að flutningaskipið Rubymar hefði sokkið eftir loftárás en engan sakaði. 


Tengdar fréttir

Skip sökk eftir loftárás Húta

Flutningaskipið Rubymar sökk í Rauðahafinu í gærkvöldi eftir loftárás Húta í Jemen. Skipið er það fyrsta til þess að sökkva vegna aðgerða Húta í tengslum við stríðið á Gasa. 

Umfangsmiklar loftskeytaárásir á Húta

Bandaríkjamenn og Bretar gerðu með stuðningi fleiri ríkja loftárás á átján skotmörk Húta í Jemen í dag. Er þetta fjórða árásin á Hútana frá því að flugskeytaárásir þeirra hófust í Rauðahafinu í nóvember.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×