Íslenski boltinn

Ný­liðar Vestra lönduðu reyndum mark­verði

Sindri Sverrisson skrifar
William Eskelinen er orðinn leikmaður Vestra og kemur til landsins í vikunni.
William Eskelinen er orðinn leikmaður Vestra og kemur til landsins í vikunni. Vestri

Nú þegar rúmur mánuður er í að Vestri spili sína fyrstu leiki í Bestu deild karla í fótbolta hafa nýliðarnir tryggt sér nýjan markvörð, frá Svíþjóð.

Vestramenn hafa leitað logandi ljósi að markverði eftir að Daninn Andreas Söndergaard, sem samdi við félagið eftir síðustu leiktíð, tók U-beygju og ákvað að vera áfram í Danmörku. Þeir reyndu meðal annars að fá Guy Smit, sem endaði í KR, og að fá Þórð Ingason, fyrrverandi markvörð meistaraliðs Víkings, til að taka fram hanskana að nýju en án árangurs.

Nú hefur Vestri hins vegar samið við hinn sænska William Eskelinen sem er með ansi sannfærandi ferilskrá.

Eskelinen er 27 ára gamall og hefur til að mynda leikið í dönsku úrvalsdeildinni með AGF og sænsku úrvalsdeildinni með Sundsvall. Síðustu tvö tímabil hefur hann varið mark Örebro í sænsku 1. deildinni.

Þess má geta að William er sonur Kaj Eskelinen, fyrrverandi framherja sem varð markakóngur sænsku úrvalsdeildarinnar og meistari með IFK Gautaborg árið 1990.

William er væntanlegur til Íslands í þessari viku og ætti því að geta verið með Vestra í síðasta leik liðsins í Lengjubikarnum, geng Gróttu 25. mars. Fyrsti leikur liðsins í Bestu deildinni verður svo á útivelli gegn Fram 7. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×