Enski boltinn

Fót­boltinn er að „drepa vöruna sína“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne meiddist eftir aðeins hálftíma leik í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrravor.
Kevin De Bruyne meiddist eftir aðeins hálftíma leik í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrravor. Getty/ Jose Breton

Mikið leikjaálag á bestu fótboltamönnum heims er ofarlega í huga framkvæmdastjóra leikmannasamtakanna á Englandi, PFA.

Umræðan hefur verið lengi í gangi en alltaf finna alþjóðasamböndin leiðir til að bæta við leikjum. Nú er verið að stækka margar keppnir með tilheyrandi auknu álagi.

Maheta Molango er framkvæmdastjóri samtaka atvinnumannafótbolta í Englandi og hann varar við afleiðingunum.

Molango nefnir sem dæmi þegar Manchester City leikmaðurinn Kevin de Bruyne fór snemma af velli í úrslitaleik Meistaradeildarinnar síðasta vor.

„Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar á að vera okkar Super Bowl. Hann var það ekki af því að einn besti leikmaður heims, De Bruyne, meiddist á 30. mínútu, [Erling] Haaland var útkeyrður og Rodri, einn besti íþróttamaðurinn, var kominn með krampa eftir klukkutímaleik,“ sagði Maheta Molango við BBC.

„Að okkar mati þá snýst þetta ekki lengur bara um heilsu leikmanna. Þetta snýst orðið um að við erum að drepa vöruna okkar,“ sagði Molango.

Rannsóknir sýna að á þessu tímabili er fimmtán prósent aukning á meiðslum leikmanna. Það er risastórt stökk miðað tímabilin á undan og afleiðingarnar blasa því við.

Molango horfir til Bandaríkjanna og þá sérstaklega til NFL-deildarinnar.

„Ég var að tala við kollega mína í NFL-deildinni og þeir sögðu að þar spila þeir bara sautján leiki og græða yfir tíu milljarða dollara á hverju ári,“ sagði Molango. Hann vill því meina að það að fjölga leikjum sé ekki endilega rétta leiðin til að auka innkomu úr sportinu.

„Því miður eru menn að taka óheppilegar ákvarðanir án þess að taka tillit til leikmannanna sem eru miðpunktur leiksins,“ sagði Molango.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×