Erlent

Ísraels­menn og Hamas segja Biden hafa verið helst til bráðlátan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkomulagið kveður á um stóraukna neyðaraðstoð til handa íbúum Gasa og að öllum nema fullorðnum mönnum verði hleypt aftur norður.
Samkomulagið kveður á um stóraukna neyðaraðstoð til handa íbúum Gasa og að öllum nema fullorðnum mönnum verði hleypt aftur norður. AP/Fatima Shbair

Bæði Ísraelsmenn og fulltrúar Hamas-samtakanna segja Joe Biden Bandaríkjaforseta, sem sagðist í fyrradag vonast til þess að vopnhlé yrði í höfn eftir næstu helgi, hafa verið helst til bráðlátann þegar hann lét ummælin falla.

Basem Naim, leiðtogi stjórnmálaarms Hamas á Gasa sagði í gær að samtökin hefðu ekki fengið nýjar tillögur formlega í hendur eftir viðræður í París í síðustu viku, sem áttu sér stað fyrir millgöngu Bandaríkjanna, Egyptalands og Katar.

Ummæli Biden væru ekki í takt við raunveruleikann „á víglínunni“.

Embættismenn í Ísrael sögðu sömuleiðis í samtali við Reuters að ummæli Biden hefðu komið á óvart og að ekkert samráð hefði verið haft við stjórnvöld í Ísrael áður en þau voru látin falla. Þannig væru Hamas-liðar enn að gera óraunhæfar kröfur í viðræðunum.

Biden sagði meðal annars að Ísraelsmenn hefðu samþykkt að láta af árásum yfir Ramadan, föstuhátíð múslima, í þeim tilgangi að gefa samningateyminu tækifæri til að ná öllum gíslum frá Gasa.

Vísir greindi frá ákveðnum skilmálum vopnahléssamkomulagsins sem nú liggur á borðinu í gær en samkvæmt Guardian felur það einnig í sér að Ísraelsmenn heimiluðu viðgerðir á heilbrigðisstofnunum og bakaríum á Gasa, hleyptu 500 flutningabifreiðum með neyðaraðstoð inn á svæðið á hverjum degi og að þeim gríðarlega fjölda sem væri á vergangi yrði séð fyrir tjöldum og öðru skjóli.

Þá yrði öðrum en fullorðnum mönnum leyft að snúa aftur til norðurhluta Gasa.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.


Tengdar fréttir

Við­ræður um fanga­skipti og vopna­hlé mjakast á­fram

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist í gær telja að samkomulag um vopnahlé og lausn gísla í haldi Hamas myndi mögulega liggja fyrir eftir um það bil viku. „Við erum nálægt því. Við erum ekki búin ennþá. Ég vona að á mánudag verði vopnahlé í höfn,“ sagði forsetinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×