Íslenski boltinn

Guð­jón Þórðar sæmdur gull­merki ÍA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Þórðarson var sigursæll bæði sem leikmaður og þjálfari Skagaliðsins.
Guðjón Þórðarson var sigursæll bæði sem leikmaður og þjálfari Skagaliðsins. Getty/Neal Simpson

Skagamenn hafa látið Guðjón Þórðarson fá gullmerki félagsins fyrir frábært framlag hans til knattspyrnunnar á Akranesi.

Guðjón er margfaldur Íslands- og bikarmeistari með ÍA, bæði sem leikmaður og þjálfari. Alls hefur hann hjálpað Skagamönnum að vinna átta Íslandsmeistaratitla og sjö bikarmeistaratitla sem annað hvort leikmaður eða þjálfari.

Guðjón er leikjahæsti leikmaður ÍA í efstu deild með 213 leiki. Hann stýrði liðinu líka í 102 leikjum í efstu deild. Alls kom hann því að 315 leikjum Skagamanna í deild þeirra bestu.

Guðjón varð fimm sinnum Íslandsmeistari með Skagaliðinu sem leikmaður, fyrst 1974 og síðast 1984. Hann var leikmaður liðsins sem vann tvöfalt tvö sumur í röð 1983-1984.

Guðjón var maðurinn á bak við sigurgöngu liðsins á tíunda áratug síðustu aldar. Hann tók við liðinu eftir fall úr efstu deild 1990. Skagamenn unnu 1. deildina 1991 og urðu svo Íslandsmeistarar sem nýliðar sumarið 1992. Árið eftir vann ÍA síðan tvöfalt og er almennt talið besta lið sem hefur spilað á Íslandi.

Guðjón fór í KR í tvö ár en kom síðan aftur heim og vann tvöfalt með Skagaliðið sumarið 1996. Liðið hafði þá unnið fimm Íslandsmeistaratitla í röð og alls sjö stóra titla á fimm árum.

„Guðjón hefur staðið öðrum þjálfurum framar á Íslandi í áraraðir og þótti brautryðjandi í þjálfun. Hann hefur sýnt árangur sem erfitt er að leika eftir. Það er sannur heiður að heiðra Guðjón með gullmerki fyrir hans frábæra framlag til knattspyrnunnar á Akranesi,“ segir á miðlum Skagamanna um heiðursveitinguna.

ÍAFleiri fréttir

Sjá meira


×