Íslenski boltinn

Þor­valdur Ör­lygs­son nýr for­maður Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glaður Þorvaldur fagnar sigrinum.
Glaður Þorvaldur fagnar sigrinum. Vísir/Anton Brink

Þorvaldur Örlygsson var nú rétt í þessu kosinn formaður KSÍ, Knattspyrnusambands Íslands, en hann hafði betur gegn Guðna Bergssyni og Vigni Má Þormóðssyni í formannskjörinu.

Ársþing KSÍ fór að þessu sinni fram í Framheimilinu í Úlfarsárdal en um er að ræða 78. ársþing KSÍ. Að venju voru hinar ýmsar tillögur lagðar fram, sumar felldar og aðrar samþykktar.

Mesta spennan var þó fyrir formannskjörinu en ljóst var að Vanda Sigurgeirsdóttir yrði ekki áfram formaður sambandsins. Að þessu sinni voru þrír sem buðu sig fram, það voru þeir Guðni Bergsson, Vignir Már Þormóðsson og Þorvaldur Örlygsson.

Guðni var formaður sambandsins áður en Vanda tók við eftir að Guðni og öll stjórnin sagði af sér í kjölfar gagnrýni á hvernig sambandið höndlaði meint kynferðisafbrot landsliðsmanna. Var stjórn sambandsins ásökuð um þöggun og meðvirkni.

Í fyrstu umferð formannskjörsins greiddu 144 atkvæði en það þarf hreinan meirihluta til að komast í formannsstól KSÍ. Guðni fékk fæst atkvæði, eða 30 talsins, og var því ekki með er kosið var aftur.

Guðni hlaut fæst atkvæði af þeim þremur sem buðu sig fram.Vísir/Anton Brink

Úrslit fyrri umferðar:

  • Guðni Bergsson: 30 atkvæði - 28,3 prósent
  • Þorvaldur Örlygsson 55 atkvæði – 38,19 prósent
  • Vignir Már Þormóðsson 59 atkvæði – 40,97 prósent

Í síðari kosningunni hafði Þorvaldur betur en hann hlaut 75 atkvæði eða 51,72 prósent. Vignir Már fékk 70 atkvæði eða 48,28 prósent. Þorvaldur er því nýr formaður KSÍ.

Þorvaldur þakkar fyrir sig.Vísir/Anton Brink

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×