Enski boltinn

„Völlurinn og liðið breyttu leiknum í sam­einingu“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Klopp fagnaði vel með stuðningsmönnum Liverpool í leikslok.
Klopp fagnaði vel með stuðningsmönnum Liverpool í leikslok. Vísir/Getty

Jurgen Klopp var gríðarlega ánægður eftir sigur Liverpool á Luton Town í kvöld en toppliðið var 1-0 undir í hálfleik. Hann sagði liðið ekki vera sigurstranglegra fyrir úrslitaleik deildabikarsins gegn Chelsea á sunnudag. 

Liverpool var 1-0 undir eftir fyrri hálfleikinn í kvöld en líkt og svo oft áður undir stjórn Klopp náði liðið að snúa við blaðinu og tryggja sér sigur eftir að hafa lent undir. Virgil Van Dijk og Cody Gakpo skoruðu með tveggja mínútna millibili í síðari hálfleiknum þar sem þeir leikurinn snerist áður en Luis Diaz og Harvey Elliott bættu mörkum við.

„Ég var ánægður með margt í fyrri hálfleik. En ég sá að strákarnir og áhorfendur voru ekki eins ánægðir. Við byrjuðum ágætlega og þú þarft að venjast andstæðingnum. Síðan skora þeir en það var allt í góðu þar til á síðasta þriðjungnum og þar vorum við að flýta okkur of mikið.“

„Ég sagði strákunum að þetta væri toppleikur og að við yrðum að vera yfirvegaðri á lykilaugnablikum. Síðan komu flugeldar og frábær mörk. Frábært kvöld og þetta var mjög gott.“

Luis Diaz fór illa með færi í byrjun leiks en tókst að skora þriðja markið sem gekk endanlega frá leiknum.

„Hann skoraði og Cody Gakpo, hvílíkur leikur og hjá Ryan Gravenberch líka. Þeir voru allir frábærir. Caoimhin Kelleher þurfti að berjast gegn átta eða níu mönnum til að ná boltanum í föstum leikatriðum.“

Undir lokin komu ungu leikmennirnir James McConnell og Jayden Danns inn á völlinn og áttu þátt í fjórða marki liðsins.

„Krakkarnir komu inn og gerðu frábærlega. Það er gaman hvernig sagan og menningin kennir næstu kynslóð. Völlurinn og liðið breytti leiknum í sameiningu. Strákarnir eru tilbúnir og ég myndi ekki gera þetta ef þeir væru það ekki. Ég myndi ekki setja Bobby inn ef hann væri ekki klár. Það leit pínu út fyrir að leikmenn Luton væru búnir og ég treysti þeim einfaldlega vel.“

Margir lykilmenn voru frá vegna meiðsla hjá Liverpool og óljóst hvort einhverjir þeirra verði komnir til baka þegar liðið mætir Chelsea í úrslitaleik deildabikarsins á sunnudag.

„Við vitum ekkert. Við þurfum að sjá en ég hef sagt að svo lengi sem við erum með ellefu leikmenn þá reynum við. Verðum við sigurstranglegri? Nei, klárlega ekki. Síðan við spiluðum við Chelsea síðast hafa þeir bætt sig mikið og þetta verður erfitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×