Erlent

Hvíta húsið reiðu­búið til að sjá Úkraínu fyrir lang­drægum vopnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínskir þjóðvarnarliðar við æfingar.
Úkraínskir þjóðvarnarliðar við æfingar. AP/Efrem Lukatsky

Joe Biden Bandaríkjaforseti er sagður reiðubúinn til að senda Úkraínumönnum langdrægar eldflaugar ef þingið samþykkir aukna fjárhagsaðstoð til handa Úkraínu.

Öldungadeild þingsins hefur þegar samþykkt hinn 60 milljarð dala pakka en málið hefur ekki komist í gegnum fulltrúadeildina sökum andstöðu meðal Repúblikana. 

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir tafirnar þegar farnar að koma niður á Úkraínu, þar sem Rússar hafi nýtt sér aðfangaskort Úkraínuhers til að sækja fram. Staðan sé orðin erfið víða á framlínunni, ekki síst þar sem Rússar hafi mikinn herafla.

Bandaríkjamenn sendu Úkraínu svokallaðar Atacms-eldflaugar í fyrra, með þeim skilyrðum að þær yrðu ekki notaðar gegn skotmörkum í Rússlandi. Nú virðast þeir reiðubúnir til að sjá Úkraínumönnum fyrir langdrægri útgáfu eldflauganna, sem myndi gera þeim kleift að ráðast gegn skotmörkum á Krímskaga.

Samkvæmt heimildarmönnum NBC gæti framkvæmdin orðið þannig að bandamenn Bandaríkjanna innan Atlantshafsbandalagsins flyttu flaugar til Úkraínu gegn því að Bandaríkjamenn fylltu á birgðir þeirra síðar.

Rússar náðu Avdiivka á sitt vald á dögunum, sem varnarmálaráðherra Úkraínu, Rustem Umerov, sagði sýna að Úkraínumenn þyrftu að fá langdræg vopn til að geta tortímt þyrpingum óvinarins.

Langdræg vopn eru einnig sögð hafa verið til umræðu á fundi Antony Blinken og Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Úkraínu á laugardag. Kulega sagði í kjölfarið að langdrægar flaugar væru eina leiðin til að ná aftur hernumdum svæðum Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×