Erlent

Tug­þúsundir mót­mæltu að­för for­setans að frjálsum kosningum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmælendur eru uggandi vegna stöðu mála og segja forsetaefnið Sheinbaum strengjabrúðu Obrador.
Mótmælendur eru uggandi vegna stöðu mála og segja forsetaefnið Sheinbaum strengjabrúðu Obrador. AP/Marco Ugarte

Tugir þúsunda mótmæltu á Zocalo-torgi í Mexíkóborg um helgina, tilraunum forsetans Andrés Manuel López Obrador til að grafa undan og veikja El Instituto Nacional Electoral.

El Instituto Nacional Electoral (INE) er sjálfstæð stofnun sem hefur umsjón með framkvæmd allra opinberra kosninga í Mexíkó. Obrador er sagður hafa þrýst á breytingar hjá INE allt frá því að hann náði kjöri árið 2018.

Segir hann INE „hlutdræga og spillta“ og segir það myndu spara skattgreiðendum um þaði bil 150 milljónir dala á ári með því að draga verulega úr umsvifum stofnunarinnar og fækka starfsmönnum.

„Við viljum ekki árásir á sjálfstæðar stofnanir okkar, við viljum standa vörð um lýðræðið, við viljum að INE sé sjálfstæð og við viljum að forsetinn sé ekki með hendurnar í kosningunum,“ hefur AFP eftir einum mótmælendanna, Diönu Arnaiz.

Maria de Jesus Torres sagði milljónir Mexíkóa á móti stjórnvöldum og að hún væri að mótmæla fyrir börnin sín og barnabörn.

Yfirvöld hafa sagt um það bil 90 þúsund manns hafa sótt mótmælin en skipuleggjendur þeirra segja raunverulegan fjölda mun meiri.

Obrador getur ekki sóst eftir endurkjöri þar sem forsetar geta aðeins setið í sex ár. Hann hefur lýst yfir stuðningi við Claudiu Sheinbaum, fyrrverandi borgarstjóra Mexíkóborgar. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur hún mest fylgi eins og sakir standa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×