Enski boltinn

Clatten­burg kominn í á­huga­vert starf hjá Notting­ham For­est

Smári Jökull Jónsson skrifar
Mark Clattenburg dæmdi marga stórleiki á sínum tíma.
Mark Clattenburg dæmdi marga stórleiki á sínum tíma. Vísir/Getty

Fyrrum dómarinn Mark Clattenburg var í stúkunni í leik Nottingham Forest gegn West Ham í gær og sat þar við hlið eiganda Forest. Clattenburg er orðinn starfsmaður Forest og hlutverk hans er nokkuð áhugavert.

Mark Clattenburg var í nokkur ár talinn einn besti dómari í heimi en hann dæmdi í ensku úrvalsdeildinni á árunum 2004-2017. Hann dæmdi úrslitaleik Meistaradeildarinnar á milli Madrídarliðanna Real og Atletico árið 2016 og úrslitaleik EM í Frakklandi sama ár.

Síðustu ár hefur Clattenburg meðal annars starfað í Kína og Egyptalandi þar sem hann hefur sinnt ráðgjafastörfum. Þá hefur hann starfað í sjónvarpsþættinum Gladiators á BBC og skrifað pistla um dómgæslu í Daily Mail.

Býst við að Clattenburg geti gefið góðar útskýringar

Nú er Clattenburg hins vegar kominn á launaskrá hjá enska úrvalsdeildarliðinu Nottingham Forest. Þar mun hann starfa sem nokkurs konar ráðgjafi í dómaramálum. Forest hafa fengið nokkra vafasama dóma gegn sér á tímabilinu og hafa ráðið Clattenburg til að bæta skilning þeirra á ákvörðunum.

„Við búumst við að einhver með jafn mikla reynslu og hann geti gefið okkur góða útskýringu á því sem gerist. Allir í herberginu er að spyrja og ég spyr sjálfan mig: Af hverju?,“ sagði Nuno Esposito Santos knattspyrnustjóri Forest um aðkomu Clattenburg hjá Forest.

„Með VAR og allt svo augljóst, þá býst ég við að Mark gefi mér útskýringu og segi: Þetta er það sem gerðist.“

Bar atvikið saman við vítið sem Jota fékk

Í leik Nottingham Forest og Newcastle ákvað dómarinn Anthony Taylor ekki að dæma víti á markvörð Newcastle Martin Dubravka sem felldi Taiwo Awoniyi  og VAR sendi Taylor ekki í skjáinn. Clattenburg bar atvikið saman við það þegar Diogo Jota framherji Liverpool fékk víti fyrr í vetur þegar margir töldu að ekki hefði átt að dæma.

„Awoniyi hafði meira til síns máls en Jota. Dubravka lyfti hægri hönd sinni og gerði honum ómögulegt að standa í fæturnar. Samt fékk Forest ekkert,“ sagði Clattenburg um það atvik.

Það verður áhugavert að sjá hvaða áhrif koma Clattenburg hefur hjá Nottingham Forest en liðið er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×