Íslenski boltinn

Rappaði með Haaland og gæti endað í ÍA

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland, leikmaður Manchester City, Erik Botheim, leikmaður Malmö, og Erik Sandberg, mögulega næsti leikmaður ÍA, eru góðir félagar.
Erling Haaland, leikmaður Manchester City, Erik Botheim, leikmaður Malmö, og Erik Sandberg, mögulega næsti leikmaður ÍA, eru góðir félagar. Instagram/@eriktsandberg

Góður vinur einnar stærstu knattspyrnustjörnu heims, Erlings Haaland, gæti átt eftir að standa í vörn Skagamanna þegar þeir snúa aftur í Bestu deildina í sumar.

Norski miðvörðurinn Erik Sandberg hefur verið á Akranesi síðustu daga og æft með ÍA, en fór af landi brott í gær. Kristján Óli Sigurðsson úr hlaðvarpsþættinum Þungavigtinni sagði ÍA vera að landa Sandberg en samkvæmt upplýsingum Vísis er það ekki frágengið.

Sandberg, sem er 23 ára, hefur spilað í efstu og næstefstu deild NOregs, með Lilleström, Skeid og svo Jerv síðsutu þrjú ár.

Ekki þarf að leita lengi á Instagram-síðu Sandberg til að finna myndir af honum með Erling Haaland, markakóngi Evrópu á síðustu leiktíð, en þeir hafa þekkst lengi og voru saman í yngri landsliðum Noregs. 

Félagarnir stofnuðu auk þess rappsveitina Flow Kingz á sínum tíma ásamt Erik Botheim, sem einnig lék með yngri landsliðum Noregs, og gáfu út lagið Kygo Jo. Myndband við lagið hefur verið spilað ellefu milljón sinnum á YouTube.

Ljóst er að Skagamenn ætla að sækja sér miðvörð áður en keppnistímabilið hefst en það verður að koma í ljós hvort það verður Sandberg. Fyrsti leikur ÍA í Bestu deildinni, eftir sigurinn í Lengjudeildinni í fyrra, verður við Val á Hlíðarenda 7. apríl.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×