Erlent

Smith biður hæsta­rétt um að tefja ekki réttar­höldin

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, fyrrverandi forseti og væntanlegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins.
Donald Trump, fyrrverandi forseti og væntanlegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. AP/David Yeazell

Jack Smith, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hefur farið fram á það við dómara hæstaréttar að þeir heimili það að réttarhöldin gegn Donald Trump vegna viðleitni hans til að halda völdum eftir að hann tapaði forsetakosningunum 2020 geti hafist sem fyrst. Það er eftir að Trump bað dómarana um að tefja réttarhöldin þar til fram yfir næstu forsetakosningar, sem fara fram í nóvember.

Smith sendi hæstarétti erindi í gær þar sem hann bað um að úrskurði áfrýjunardómstóls í Washington DC um að Trump nyti ekki þeirrar friðhelgi sem hann vill njóta, yrði látinn gilda áfram.

Saksóknarar Smith segja í erindinu að tilraunir til að snúa úrslitum kosninga og koma í vald fyrir valdaskipti sé ekki rétti vettvangurinn til að viðurkenna nýstárlega kröfu um algera friðhelgi frá lögum. Samkvæmt Washington Post krefst Smith þess að ákveðið dómarar að taka málið fyrir, eins og talið er líklegt, verði það gert strax í mars.

Þeir segja ótækt að tefja réttarhöldin gegn Trump frekar. Trump hafi reynt að brjóta á þeim rétti kjósenda að atkvæði þeirra séu talin og gildi og ekki sé hægt að tefja málið þar til eftir aðrar kosningar.

Vill tefja réttarhöld

Til stóð að hefja réttarhöldin gegn Trump í Washington þann 4. mars en þeim var frestað um óákveðinn tíma vegna kröfu Trumps um að hann njóti friðhelgi frá lögsókn.

Trump og lögmenn hans hafa haldið því fram að ekki sé hægt að ákæra hann vegna einhvers sem hann gerði þegar hann sat í embætti. Lögmennirnir hafa meðal annars sagt að forseti gæti látið hermenn myrða pólitíska andstæðinga sína og ekki væri hægt að sækja þá til saka fyrr en búið væri að ákæra þá fyrir embættisbrot og víkja úr embætti, jafnvel þó viðkomandi væri ekki lengur forseti.

Dómarar í áfrýjunardómstól í Washington DC komust svo að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að Trump nyti ekki friðhelgi.

Eftir það leitið lögmenn Trumps til hæstaréttar og báðu dómara um að fresta úrskurði þar til fram yfir kosningarnar.

Trump og lögmenn hans hafa gert allt sem þeir geta til að reyna að tefja málaferli þar til eftir kosningarnar í nóvember. Takist honum að tefja réttarhöldin fram yfir kosningar og sigri hann Joe Biden, gæti hann beitt völdum embættisins til að stöðva málaferlin gegn honum eða jafnvel náða sjálfan sig.

Smith hefur einnig ákært Trump vegna opinberra og leynilegra skjala sem hann tók með sér til Flórída þegar hann flutti úr Hvíta húsinu í janúar 2021.

Þar að auki stendur Trump frammi fyrir ákærum í tveimur málum til viðbótar. Í heildina hefur hann verið ákærður í 91 lið.

Donald Trump hefur verið ákærður fjórum sinnum.

Jack Smith, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, hefur ákært Trump í tveimur málum. Annað þeirra snýr að viðleitni hans til að snúa úrslitum forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2020 á landsvísu. Réttarhöldin áttu að hefjast 4. mars en hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Hitt snýr að opinberum gögnum og leynilegum skjölum sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu þegar hann flutti til Flórída og neitaði að afhenta. Réttarhöldin eiga að hefjast í maí.

Hann hefur einnig verið ákærður í New York fyrir brot á lögum um kosningar vegna þagnargreiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels. Réttarhöldin eiga að hefjast 25. mars.

Trump hefur þar að auki verið ákærður í Georgíu og fyrir að reyna að snúa úrslitum kosninganna þar. Ekki er búið að ákveða hvenær réttarhöldin í Georgíu eiga að hefjast en búið er að ákveða að sýnt verði frá þeim í beinni útsendingu.


Tengdar fréttir

Tókst að ákæra Mayorkas í annarri tilraun

Repúblikönum í fulltrúadeild Bandaríkjaþings tókst í gær að ákæra Alejandro N. Mayorkas, yfirmann heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna, fyrir meint embættisbrot. Þetta var í annað sinn sem þeir greiddu atkvæði um ákæru og var hún samþykkt með einu atkvæði.

Biden brást reiður við skýrslu um leyniskjöl

Sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna sem rannsakað hefur opinber og leynileg skjöl sem fundust í vörslu Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, frá þeim tíma er hann var óbreyttur borgari, birti í gær skýrslu um rannsókn sína. Þar sagði hann ekki tilefni til að ákæra Biden en sagði hann hafa vísvitandi haldið eftir leynilegum gögnum og jafnvel sýnt öðrum þau.

Kjörgengi Trumps rætt í Hæstarétti

Málflutningur um það hvort ríki Bandaríkjanna hafi rétt til að meina Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, að vera á kjörseðlum þar í forsetakosningunum sem haldnar verða í nóvember, stendur nú yfir fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×