Erlent

„Hvert getum við farið?“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Loftmyndin til vinstri af Rafah borg var tekin þann 13. október síðastliðinn. Myndin til hægri, af sama svæði var tekin 14. janúar. 1,5 milljón manns hafast nú við í borginni.
Loftmyndin til vinstri af Rafah borg var tekin þann 13. október síðastliðinn. Myndin til hægri, af sama svæði var tekin 14. janúar. 1,5 milljón manns hafast nú við í borginni. Planet Labs PBC/AP

Palestínskir flóttamenn og aðrir íbúar í Rafah á suðurhluta Gasa eru gríðarlega óttaslegnir í aðdraganda innrásar Ísraelshers. Harðar loftárásir hersins hafa dunið á borginni síðustu daga.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að meira en helmingur íbúa Gasa hafist nú við í tjöldum í borginni. Áður bjuggu 250 þúsund manns í borginni en loftmyndir þaðan sýna hvernig hver einasti auði blettur er nú þakinn tjöldum flóttafólks. Ísraelsmenn lýstu því yfir í síðustu viku að þeir hygðust gera innrás inn í borgina.

„Algengasta spurningin sem maður heyrir einfaldlega er, hvert getum við farið?“ hefur breska ríkisútvarpið eftir Ahmed Abuibaid, lækni og íbúa í Rafa borg. Hann segir íbúa og flóttamenn í borginni gríðarlega óttaslegna, þá hafi loftárásir Ísraela verið þær verstu sem hann man eftir.

Vinni að sex vikna vopnahléi

Áður hefur Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, fullyrt að verið sé að vinna áætlun um það hvernig almennum borgurum verði hleypt á svæði norður af Rafah. Hann segir ekki koma til greina að láta staðar numið.

„Sigur er innan seilingar. Þeir sem segja að við ættum ekki að fara inn í Rafah eru í raun að segja, „tapið stríðinu, skiljið Hamas þar eftir.“

Alþjóðasamfélagið hefur hvatt Ísraela til að láta ekki verða af innrás sinni inn í Rafah borg. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hefur hvatt Ísraela til að láta ekki verða af innrás sinni nema öryggi almennra borgara verði tryggt.

Þá hefur BBC eftir Biden að bandarísk stjórnvöld vinni að því að fá deiluaðila til að samþykkja vopnahlé sem hann voni að muni vara í hið minnsta sex vikur. Hamas samtökin verði fengin til að sleppa gíslum sem samtökin tóku í mannskæðri árás í suðurhluta Ísrael þann 7. október og tímabundnu vopnahléi þar með vonandi komið á.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×