Enski boltinn

Sagði orð Guar­diola hafa verið al­gjöran lág­punkt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kalvin Philips er sáttur hjá liði West Ham og vonast til að vera valinn í leikmannahóp Englands fyrir Evrópumótið í sumar.
Kalvin Philips er sáttur hjá liði West Ham og vonast til að vera valinn í leikmannahóp Englands fyrir Evrópumótið í sumar. Vísir/Getty

Kalvin Philips var lánaður frá Manchester City til West Ham í janúarglugganum. Hann var keyptur til City sumarið 2022 en náði sér aldrei á strik hjá meisturnum.

Kalvin Philips var einn heitasti bitinn á markaðnum þegar Manchester City keypti hann frá Leeds sumarið 2022 fyrir rúmar 40 milljónir punda. Hann spilaði vel fyrir England á EM árið 2021 og lék tvo leiki með liðinu á HM í Katar í desember 2022.

Síðan þá hefur ferillinn hins vegar verið á niðurleið. Philips hefur fá tækifæri fengið hjá Pep Guardiola og ákvörðunin um að fara til West Ham var tekin til að fá fleiri mínútur á vellinum.

„Ég vildi gefa sjálfum mér besta tækifærið til að spila á Evrópumótinu,“ segir Philips í samtali við The Sun en hann á þar við Evrópumótið í Þýskalandi í sumar.

Eftir heimsmeistaramótið í Katar var Philips ekki í leikmannahópi City og í kjölfarið sagði Pep Guardiola að Philips hefði komið of þungur til baka eftir heimsmeistaramótið.

„Eftir heimsmeistaramótið var lágpunkturinn, þegar Pep sagði í viðtali að ég væri of þungur. Hann hafði rétt á að segja þetta en það eru mismunandi leiðir að koma því frá sér.“

„Fjölskyldan mín var ekki ánægð“

„Pep var pirraður að ég skyldi ekki koma snemma til baka til æfinga en það var misskilningur á milli mín og starfsfólks City. Hann vildi að ég kæmi daginn sem við féllum úr leik og vera til taks í vináttuleikjum. Ég fékk aldrei þau skilaboð og ég hefði mætt ef hann hefði beðið mig um að koma.“

Hann segir að orð Guardiola hafa dregið niður sjálfstraust sitt og að fjölskylda hans hafi ekki verið ánægð með orð Spánverjans.

„Hann var mjög pirraður að ég hafi komið til baka 1,5 kílói þyngri en stefnan var. Þetta hafði mikil áhrif á það hvernig mér leið hjá City. Fjölskyldan mín var ekki ánægð,“ og bætti við að mamma sín hefði fundist þetta sérstaklega erfitt.

„Hún var pirruð. Hún kom ekki að horfa á leiki því hún vildi ekki horfa þegar ég var ekki að spila.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×