Erlent

Matar­birgðir til sveltandi Gasabúa sitja fastar í ísraelska tollinum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hundruðir þúsunda dvelja í frumstæðum tjaldbúðum í borginni Rafah.
Hundruðir þúsunda dvelja í frumstæðum tjaldbúðum í borginni Rafah. AP/Fatima Shbair

Matarbirgðir ætlaðar rúmri milljón Palestínumönnum á vergangi eru fastar í ísraelskri höfn vegna boða ísraelskra yfirvalda.

Þetta segir Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). Samkvæmt þeim vofir sultur yfir fjórðungi allra Palestínumanna.

Skipað að afgreiða ekki matarbirgðir

Guardian greinir frá því að Philippe Lazzarini formaður UNRWA segi að miklar matarbirgðir hafi sitið fastar í ísraelsku hafnarborginni Ashdod og að ísraelskt verktakafyrirtæki sem samtökin starfa með hafi fengið símtal frá tolleftirliti Ísraels þar sem þeim var skipað að afgreiða engar birgðir flóttamannaaðstoðarinnar.

Í færslu sem Palestínuflóttamannaaðstoðin birti á samfélagsmiðilinn X kemur fram að meira en þúsund kassar af hrísgrjónum, hveiti, kjúklingabaunum, sykri og matreiðsluolíu séu fastir.

Samkvæmt Guardian væru birgðirnar nægar til að brauðfæða 1,1 milljón manns í mánuð.

Ísraelski herinn er að undirbúa rýmingu borgarinnar og segir Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, það vera einu leiðina til að uppræta Hamas.

Fjöldi látinna nálgast þrjátíu þúsund

Hundruðir þúsunda Gasabúa dvelja nú í frumstæðum tjaldbúðum við borgina Rafa við landamæri Egyptalands og er hún orðin síðasta skjól þeirra. Loftárásir á borgina hafa aukist og hafa margir látið lífið.

Herinn hefur fengið skipun um að undirbúa rýmingu borgarinnar og segir forsætisráðherra Ísraels það einu leiðina til að ná því markmiði að uppræta Hamas.

Samkvæmt nýjustu tölum frá heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem er rekið af Hamas, hafa 117 Palestínumenn látist og 152 særst á síðasta sólarhring. Alls er talið að rúmlega 28 þúsund Palestínumanna hafi látið lífið síðan innrás Ísraels hófst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×