Erlent

Einn leið­toga Hamas segir nýjar vopna­hlés­til­lögur til skoðunar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ismail Haniyeh, einn af æðstu ráðamönnum Hamas, mun ferðast til Egyptalands til að ræða nýjar tillögur um vopnahlé.
Ismail Haniyeh, einn af æðstu ráðamönnum Hamas, mun ferðast til Egyptalands til að ræða nýjar tillögur um vopnahlé. epa/Ali Ali

Ismail Haniyeh, einn af leiðtogum Hamas, segir samtökin nú liggja yfir nýjum tillögum að vopnahléi á Gasa. Tillögurnar fela í sér lausn gísla og voru lagðar fram að milligönguaðilum eftir viðræður við Ísrael.

Frá þessu greinir Reuters en fréttaveitan hefur eftir Haniyeh að hann muni ferðast til Kaíró til að ræða tillögurnar en sáttasemjarar frá Egyptalandi, Katar og Bandaríkjunum ræddu þær við við fulltrúa Ísrael í París.

Auk frelsun gísla í haldi Hamas eru tillögurnar sagðar fela í sér þrjú stig; í fyrstu myndu Hamas-liðar láta lausa almenna borgara sem var rænt 7. október síðastliðinn, þá hermenn og síðast lík þeirra gísla sem hefðu látist í haldi samtakanna.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sætir nú bæði þrýstingi frá Bandaríkjamönnum um að huga að því að binda enda á átökin og frá ástvinum gíslanna, sem telja samningaviðræður einu leiðina til að tryggja öryggi þeirra og lausn.

Netanyahu hefur sagt að Ísrael muni ekki samþykkja málamiðlun sem felur í sér að herinn hörfi frá Gasa og samstarfsflokkar hans í ríkisstjórn hafa hótað því að slíta stjórnarsamstarfinu frekar en að ganga að samkomulagi sem felur ekki í sér algjöra tortímingu Hamas.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×