Erlent

Dulbjuggu sig og myrtu palestínska víga­menn á spítala

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Starfsmaður Ibn Sina spítalans fer yfir myndband úr öryggismyndavél þar sem má sjá ísraelsku sérsveitarmennina.
Starfsmaður Ibn Sina spítalans fer yfir myndband úr öryggismyndavél þar sem má sjá ísraelsku sérsveitarmennina. AP Photo/Majdi Mohammed

Ísraelskir sérsveitarliðar dulbjuggu sig sem heilbrigðisstarfsmenn og myrtu þrjá palestínska menn á spítala á Vesturbakkanum í Palestínu í morgun. Ísraelsk yfirvöld segja að um hryðjuverkamenn hafi verið að ræða.

Á myndböndum sem birst hafa í erlendum miðlum í dag má sjá sérsveitarliðana askvaðandi á gangi spítalans með riffla á lofti. Palestínsk heilbrigðisyfirvöld saka Ísraelsmenn um að fremja voðaverk á palestínskum spítölum.

Þá hefur BBC eftir Hamas samtökunum að Ísraelar hafi tekið af lífi þrjá herliða á spítalanum, þar af einn á vegum samtakanna. Þá segja samtökin að hann hafi verið að leita sér læknisaðstoðar á spítalanum. Hinir tveir eru sagðir hafa verið liðsmenn annars vígahóps, sem kenndur er við Palestinian Islamic Jihad.

Upptakan hér að neðan af vef BBC er úr öryggismyndavél spítalans. 

Einn hafi skipulagt 7. október

Í tilkynningu frá ísraelska hernum segir að einn þeirra sem myrtur hafi verið á spítalanum hafi verið vígamaður á vegum Hamas, sem skipulagt hafi hryðjuverkaárásirnar í suðurhluta Ísrael þann 7. október síðastliðnum. Rúmlega 1300 manns létust í þeirri árás og voru 250 manns teknir sem gíslar Hamas samtakanna.

Fram kemur í frétt miðilsins að spennustigið á Vesturbakkanum sé hátt. Það hafi risið hratt í kjölfar voðaverka Hamas liða í suðurhluta Ísrael þann 7. október síðastliðnum og eftir mannskæðar hefndaraðgerðir Ísraela á Gasa. Í þeim aðgerðum hafa 26.600 Palestínumenn látist, að mestu konu og börn.

Ísraelsmenn hafi síðan 7. október drepið í hið minnsta 357 manns á Vesturbakkanum, vígamenn jafnt og almenna borgara, á meðan ísraelskir landnemar hafa drepið átta manns, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Þá hafa tíu Ísraelsmenn látist vegna átaka á Vesturbakkanum og í Ísrael.

Aðkoman á spítalanum eftir árás ísraelsku sérsveitarinnar. AP Photo/Majdi Mohammed

Þrír vígamenn dóu eftir árás sérsveitarinnar.AP Photo/Majdi Mohammed


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×