Innlent

Segir á­ætlaðan vindmyllugarð al­farið innan marka Rang­ár­þings ytra

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vindmyllurnar í Búrfellslundi gætu litið svona út gangi verkefnið eftir. Stjórn Landsvirkjunar og forstjóri hennar, Hörður Arnarson, hafa metið áhættuna við að bjóða verkefnið út án leyfis þess virði.
Vindmyllurnar í Búrfellslundi gætu litið svona út gangi verkefnið eftir. Stjórn Landsvirkjunar og forstjóri hennar, Hörður Arnarson, hafa metið áhættuna við að bjóða verkefnið út án leyfis þess virði. Landsvirkjun/Vilhelm/Vísir

Landsvirkjun segir greinilega einhvern misskilning á ferð hjá sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps um staðsetningu áætlaðrar uppbyggingar vindmyllugarðs. Fyrirhugaður Búrfellslundur sé alfarið innan marka nágrannasveitarfélagsins Rangárþings ytra.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps mótmælti í gær harðlega vinnubrögðum Landsvirkjunar við undirbúning útboðs á vindmyllum við Vaðöldu, sem fengið hefur vinnuheitið Búrfellslundur. Landsvirkjun tilkynnti á miðvikudag útboðið og var það gert með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál. Sú leið, sem er nokkuð óhefðbundin, er sögð til að flýta verkefninu.

„Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps telur það vera ámælisvert að Landsvirkjun skuli reyna að fara í kringum lög og vinna gegn hagsmunum nærsamfélagsins. Slík vinnubrögð eru ekki til þess að skapa sátt um komandi orkuöflun sem nauðsynlegt er að ráðast í,“ sagði í yfirlýsingu sveitarstjórnarinnar í gær. 

Landsvirkjun segir í yfirlýsingu sem birtist í Morgunblaðinu í morgun að einhvers misskilnings gæti hjá Skeiða- og Gnúpverjahreppi um staðsetningu vindorkuversins. Fyrirhugaður Búrfellslundur sé alfarið innan sveitarfélagsmarka Rangárþings ytra. 

„Og hefur verið það frá því að skýrsla um endurhönnun virkjunarkostsins var lögð fram árið 2020. Það er sú endurhönnun virkjunarkostsins sem Alþingi færði úr biðflokki í nýtingarflokk, en ekki eldri útgáfa.“

Fram kemur í yfirlýsingunni að það að hefja útboð með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál sé vissulega óhefðbundið en með þessu sé líklegt að vindmyllurnar verði farnar að skila orku inn á raforkukerfið fyrir árslok 2026. 

Enginn þurfi að velkjast í vafa um staðsetningu Búrfellslundar enda hafi vinna við aðalskipulagsbreytingu og gerð deiliskipulags fyrir svæðið staðið síðan í desember 2022 með Rangárþingi ytra, sem hafi skipulagsvald á svæðinu.


Tengdar fréttir

Hella sér yfir Landsvirkjun vegna útboðs á vindmyllum

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps mótmælir harðlega vinnubrögðum Landsvirkjunar við undirbúning útboðs á vindmyllum við Vaðöldu. Sveitarstjórnin segir að uppbyggingu vindmyllugarðs myndi vinna gegn hagsmunum nærsamfélagsins og valda óbætanlegu tjóni til framtíðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×