Erlent

Mögu­lega fyrsti þing­maður Evrópu með Downs-heil­kennið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Galcerán hefur unnið sig upp innan flokks síns á sama tíma og hún hefur unnið ötullega að málefnum fólks með Downs-heilkennið.
Galcerán hefur unnið sig upp innan flokks síns á sama tíma og hún hefur unnið ötullega að málefnum fólks með Downs-heilkennið. Getty/Jorge Gil

Þingkonan Mar Galcerán hefur brotið blað í sögu Spánar og mögulega Evrópu, með því að verða fyrsta manneskjan með Downs-heilkennið sem kjörinn er á þing.

Galcerán gekk í íhaldsflokkinn Flokk fólksins (PP) þegar hún var 18 ára gömul. Sagðist hún hafa heillast af því hvernig flokkurinn setti hefðir í forgrunn. Hún vann sig smám saman upp og var raðað í 20. sæti á lista flokksins fyrir þingkosningarnar í Valencia í vor.

„Velkomin Mar,“ sagði Carlos Mazón, leiðtogi PP í Valencia, á samfélagsmiðlum þegar ljóst varð að Galcerán hefði komist inn á þing og sagði um að ræða afar góð tíðindi fyrir stjórnmálin.

„Þetta er fordæmalaust,“ segir hin 45 ára Galcerán í samtali við Guardian. „Samfélagið er farið að skilja að fólk með Downs-heilkenni hefur margt fram að færa. En þetta er langur vegur,“ bætti hún við.

Hún segist hins vegar vilja að fólk sjái sig fyrst og fremst sem manneskju, frekar en einstakling með fötlun.

Samtök fólks með Downs-heilkenni á Spáni segja Galcerán mögulega fyrsta einstaklingin með Downs sem er kjörinn á þing í Evrópu. Áður hafa einstaklingar með Downs hins vegar verið kjörnir í ýmiss embætti, til að mynda í Frakklandi og á Írlandi.

Þá varð Ángela Bachiller fyrst einstaklinga með Downs til að verða borgarfulltrúi á Spáni árið 2013.

Galcerán hefur unnið ötullega að málefnum fólks með Downs-heilkennið en hún segir viðbrögð við kjöri sínu hafa verið blönduð. „Þú sérð alls konar á samfélagsmiðlum. Það er fólk sem styður mig. En svo er líka fólk sem heldur að ég sé ekki hæf. En þetta er fólk sem þekkir hvorki mig né bakgrunn minn.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×