Erlent

Heim­sótti bæ sem Rússar reyna að um­kringja

Samúel Karl Ólason skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, við skilti bæjarins Avdívka, sem er á fremstu víglínu í austurhluta Úkraínu.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, við skilti bæjarins Avdívka, sem er á fremstu víglínu í austurhluta Úkraínu. Skjáskot

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, virðist hafa heimsótt hermenn við og í bænum Avdívka, sem Rússar hafa reynt að umkringja frá því í október. Forsetinn birti myndband af sér standa við skilti bæjarins þar sem hann sagðist hafa þakkað hermönnum á svæðinu fyrir harða og erfiða baráttu þeirra og veitti hann hermönnum orður.

Ekki er ljóst hvenær myndbandið var tekið en Selenskí segist hafa óskað hermönnum gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs. Átökin við Avdívka hafa verið gífurlega hörð frá því í október, þegar rússneskir hermenn byrjuðu að reyna að umkringja bæinn.

Avdívka er Dónetskhéraði í austurhluta Úkraínu. Bærinn er nærri Dónetskborg, höfuðborg héraðsins og hefur verið á fremstu víglínu frá því Rússar innlimuðu Krímskaga og aðskilnaðarsinnar í austurhluta landsins reyndu að taka Donbas-svæðið, með stuðningi Rússa, árið 2014.

Eins og áður segir hófst atlaga Rússa að bænum í október með umfangsmiklum sóknum fótgönguliðs með stuðningi skrið- og bryndreka. Rússar hafa sótt fram en það hefur gengið hægt og verið gífurlega kostnaðarsamt.

Yfirvöld í Bandaríkjunum opinberuðu fyrr í mánuðinum að talið væri að um þrettán þúsund rússneskir hermenn hefðu fallið austurhluta landsins frá því í október og þeir hefðu misst rúmlega 220 skrið- og bryndreka á þessu tímabili.

Sjá einnig: Telja þúsundir Rússa hafa fallið við Avdívka

Strax í lok október leit út fyrir að Rússar hefðu orðið fyrir gífurlegu mannfalli við Avdíka og að þeir hefðu tapað fjölmörgum skrið- og bryndrekum þar. Myndefni frá víglínunni hefur rennt stoðum undir slíkar greiningar.

Skortur á skotfærum fyrir stórskotalið er sagt hafa komið niður á vörnum Úkraínumanna.

Að minnsta kosti 28 manns féllu í umfangsmiklu eldflauga- og drónaárásum Rússa á Úkraínu um langt skeið í nótt. Úkraínumenn segja Rússa hafa í heildina notað 158 eldflaugar og sjálfsprengidróna. Stór hluti þeirra var skotinn niður af loftvörnum Úkraínumanna.

Rússar hafa sparað eld- og stýriflaugar sínar undanfarna mánuði og á sama tíma aukið framleiðslu þeirra. Talið er að þeir eigi töluverðan fjölda til að skjóta að Úkraínu í vetur og þykir líklegt að Rússar reyni að beina mörgum eldflaugum aftur að orkuinnviðum Úkraínu yfir kaldasta tíma vetrarins.

Yfirvöld í Bretlandi tilkynntu í dag að um tvö hundruð flugskeyti fyrir loftvarnir Úkraínumanna yrðu sendar til Úkraínu á næstu dögum.


Tengdar fréttir

Umfangsmestu loftárásir Rússa hingað til

Talsmaður flughers Úkraínu segist aldrei hafa upplifað jafn margar árásir á sama tíma eins og Rússar hafa gert nú í morgun. Rússar gerðu loftárásir um allt land og notuðu til þess bæði eldflaugar og dróna.

Árás Úkraínu­manna á skip við Krím­skaga hafi heppnast

Rússnesk yfirvöld hafa viðurkennt að herskip sem lá við höfn á Krímskaga sé mikið skemmt eftir úkraínska árás. Áður höfðu Úkraínumenn haldið því fram að þeim hafi tekist að gjöreyðileggja skipið. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×