Erlent

Mette aldrei verið ó­vin­sælli

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mette Frederiksen hefur gegnt embætti forsætisráðherra Danmerkur frá árinu 2019. 
Mette Frederiksen hefur gegnt embætti forsætisráðherra Danmerkur frá árinu 2019.  EPA

Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur hefur aldrei verið óvinsælli samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Epinion sem framkvæmd var á dögunum.

Ríkisstjórnin sem hún fer fyrir fagnar eins árs afmæli í dag en hefur ekki notið mikillar hylli í skoðanakönnunum. Fylgi ríkisstjórnarinnar samkvæmt þessari nýju könnun eru ein 33,8%.

Einnig sögðu 54% spurðra að þeir telji ríkisstjórnina hafa staðið sig illa síðastliðið ár en 31% sagði að hún hefði staðið sig vel. 24% þeirra sem kusu ríkisstjórnina segja hana hafa staðið sig mjög illa.

Hafa ekki áhyggjur

Christian Rabjerg Madsen, talsmaður Sósíaldemókrata segir að ríkisstjórnin hafi staðið við loforð sín og að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar sem skiptar skoðanir eru á muni skila sterkari Danmörku. Þetta segir hann í samtali við DR.

Moderaterne, annar ríkisstjórnarflokkanna, hefur þurft að glíma við ýmis hneykslismál frá ríkisstjórnarmyndun í desember síðastliðinn. Þar á meðal mál þingmannsins Mike Fonseca sem var kastað úr flokkuð eftir að í ljós kom að hann ætti fimmtán ára kærustu.

Sögulegar óvinsældir

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar sögðu 46% þátttakenda að Mette Frederiksen hafi heilt yfir staðið sig illa sem forsætisráðherra. 26% sögðu hana hafa staðið sig vel.

Þetta eru lélegustu niðurstöður Mette síðan hún tók við embætti forsætisráðherra árið 2019. Vinsældir Mette náðu hámarki vorið 2020 þegar faraldur kórónuveiruna hófst fyrir alvöru um allan heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×