Erlent

Úkraínu boðið að hefja aðildar­við­ræður við ESB

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir ákvörðunina vera sigur fyrir Evrópu alla.
Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir ákvörðunina vera sigur fyrir Evrópu alla. AP/Javad Parsa

Leiðtogaráð Evrópusambandsins bauð í dag Úkraínu og Moldóvu að hefja formlegar viðræður um inngöngu í sambandið. Það kom fram á fundi leiðtoganna sem stendur nú yfir í Brussel.

„Sigur fyrir Evrópu“

BBC greindi frá því að þar hafi einnig verið samþykkt að veita Georgíu formlega stöðu umsóknarríkis. Talsmaður forseta leiðtogaráðsins, Charles Michel, segir að ákvörðunin hafi verið einróma. Búist var við því að Ungverjar myndu standa í veg fyrir þessu og svo var ekki. 

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti kallar ákvörðunina „sigur fyrir Úkraínu og sigur fyrir alla Evrópu“ í færslu sem hann birti á samfélagsmiðilinn X í dag.

Ungverjar ósáttir

Úkraína og Moldóva sóttu um aðild að Evrópusambandinu í kjölfar innrásar Rússland í febrúar í fyrra. Bæði lönd hlutu stöðu umsóknarríkis í júní síðastliðinn en Georgía ekki fyrr en nú.

Ungverjar og forsætisráðherra þeirra Viktor Orbán hafa lengi verið andvígir aðild Úkraínu og hann birti færslu á Facebook-síðu sína í dag þar sem hann gagnrýndi niðurstöðuna.

„Aðild Úkraínu að Evrópusambandinu er slæm ákvörðun. Ungverjaland vill ekki taka þátt í slæmri ákvarðanatöku og hélt sér þar af leiðandi frá ákvörðun dagsins,“ skrifar Orbán sem sagður er hafa yfirgefið salinn þegar leiðtogaráðið tók ákvörðun sína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×