Erlent

Ferða­menn í Fen­eyjum féllu í síkið vegna sjálfu­sýki

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Það greip um sig mikil skelfing meðal hópsins eftir að bátnum hvolfdi en ræðarinn hélt þó ró sinni.
Það greip um sig mikil skelfing meðal hópsins eftir að bátnum hvolfdi en ræðarinn hélt þó ró sinni.

Hópur ferðamanna féll ofan í síki í Feneyjum þegar gondólinn sem þau voru um borð í hvolfdi af því þau neituðu að hlýða fyrirmælum ræðarans um að hætta að taka af sér sjálfur og setjast niður.

Myndband af ferðamannahópnum í gruggugu síkinu hefur farið eins og eldur í sinu um netheima. Hér fyrir neðan má sjá myndband af þeim í gruggugu vatninu:

Gondólaræðarinn hafði reynt að framkvæma snúna beygju áður en gondólanum hvolfdi og hann lenti í vatninu með farþegunum.

Að sögn feneyskra miðla hafði hópurinn, sem var frá Kína, verið á stöðugri hreyfingu í bátnum til að geta tekið af sér sjálfur. Ræðarinn hafði sagt hópnum að halda kyrru fyrir af því beygjan krefðist fullkomins jafnvægis. Þau hlýddu ekki og því hvolfdi bátnum.

Þess ber að geta að samtök gondólaræðara í Feneyjum lækkuðu hámarksfjölda farþega í gondólum árið 2020 og kenndu aukinni þyngd ferðamanna um þá ákvörðun. 

Hámarksfjöldi í klassískum gondóla, gondola da nolo, var þá lækkaður úr sex í fimm og úr fjórtán í tólf í gondola da parada, stærri gerð af gondóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×