Erlent

Juanita Castro er látin

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Juanita barðist ötullega gegn stefnu bræðra sinna en syrgði engu að síður bróður sinn Fidel þegar hann lést.
Juanita barðist ötullega gegn stefnu bræðra sinna en syrgði engu að síður bróður sinn Fidel þegar hann lést. AP/Alan Diaz

Juanita Castro, systir Fidel og Raúl Castro, er látin. Hún var 90 ára.

Það var blaðamaðurinn María Antonieta Collins, sem ritaði Fidel og Raúl, bræður mínir: Hin leynda saga með Juanitu, sem greindi frá andláti hennar á Instagram. Hún lést á mánudag en andlátsins hefur hvorki verið getið af yfirvöldum né fjölmiðlum á Kúbu.

Juanita studdi upphaflega bræður sína í tilraunum þeirra til að steypa einræðisherranum Fulgencio Batista af valdastóli og aflaði meðal annars fjár og keypti vopn. Hún missti hins vegar trúna á Fidel eftir að hann komst til valda árið 1959, varð harðlínu kommúnisti og útilokaði þá sem voru ósammála honum.

Juanita opnaði í kjölfarið heimili sitt fyrir þeim sem gagnrýndu kommúnismann og uppskar hótun frá bróður sínum, sem varaði hana við því að leggja lag sitt við „gusanos“, ormana sem mótmæltu byltingunni.

Junanita gengur með mótmælendum gegn Castro-bræðrum við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.Getty

Í fyrrnefndri bók greindi Juanita frá því að hún hefði byrjað að vinna fyrir bandarísku leyniþjónustuna (CIA) í kjölfar innrásarinnar í Svínaflóa árið 1961, fyrir milligöngu eiginkonu sendiherra Brasilíu á Kúbu.

Juanita sagði við fulltrúan sem hún hitti að hún vildi ekki þiggja peninga frá Bandaríkjamönnum, né myndi hún styðja ofbeldi gegn bræðrum sínum eða öðrum. Hún tók hins vegar að sér að smygla skilaboðum, gögnum og peningum milli Bandaríkjanna og Kúbu, í niðursuðudósum.

Árið 1963 lést móðir systkinana og Juanita sá sér þá þann kost vænstan að flýja Kúbu. Hún fór fyrst til Mexíkó en þaðan til Bandaríkjanna og varð bandarískur ríkisborgari árið 1984. Hún bjó sér heimili á Miami og bjó þar í áratugi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×