Erlent

Saka Rússa um að myrða her­menn sem gefast upp

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Atvikið átti sér stað nálægt Avdiivka þar sem mikil átök hafa geisað undanfarnar vikur.
Atvikið átti sér stað nálægt Avdiivka þar sem mikil átök hafa geisað undanfarnar vikur. AP

Yfirvöld í Kænugarði hafa sakað Rússa um stríðsglæpi eftir að myndband fór í dreifingu á samfélagsmiðlum sem virðist sýna hóp hermanna skjóta tvo úkraínska hermenn sem gáfu sig rússneskum hermönnum á vald til bana þegar þeir klifruðu upp úr skotgröf.

Myndbandið sýnir hermann klifra upp úr skotgröf með hendur upp í loft og leggjast síðan á jörðina. Annar hermaður fylgir svo fordæmi hans. Rússnesku hermennirnir hófu þá skothríð og þar lýkur myndbandinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu saksóknaraembættisins. Varnamálaráðuneyti Rússlands hefur ekki tjáð sig um málið.

Athugið að myndbandið kunni að vekja óhug.

Dmítro Lúbinets, umboðsmaður mannréttinda úkraínska þingsins, tjáði sig um myndbandið á samfélagsmiðlinum Telegram seint í gær.

„Í dag birtist myndband á netið sem sýnir aftöku úkraínskra hermanna sem gáfust upp fyrir rússneskum hermönnum. Þetta er enn annað brotið á Genfarsáttmálanum og vanvirðing í garð alþjóðlegra mannréttindalaga,“ segir Dmítro.

„Aftaka þeirra sem gefast upp er stríðsglæpur!“ bætir hann við.

Samkvæmt ríkissaksóknara þar í landi átti atvikið sér stað í Pokrovsk-héraði í Dónetsk-sýslu þar sem mikil átök hafa verið undanfarnar vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×