Erlent

Útgönguspár: Geert Wilders sigur­vegari í Hollandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Geert Wilders hefur gert sitt til þess að reyna að ná til breiðara kjósendahóps en áður.
Geert Wilders hefur gert sitt til þess að reyna að ná til breiðara kjósendahóps en áður. EPA-EFE/REMKO DE WAAL

Frelsisflokkur Geert Wilders er með flest þingsæti eftir þingkosningar í Hollandi í dag miðað við útgönguspár. Flokkurinn er lengst til hægri á pólitísku litrófi hollenskra stjórnmálaflokka og hefur Geert löngum barist gegn „íslamsvæðingu“ landsins.

Í umfjöllun Guardian kemur fram að útgönguspár bendi til þess að Frelsisflokkurinn sé með 35 þingsæti af 150. Verkamannaflokkurinn (PVV) undir stjórn Frans Timmermans með 26 sæti, íhaldsflokkurinn (VVD) undir stjórn Dilan Yesilgöz-Zegerius með 23 og nýstofnaður flokkur miðhægrimannsins Pieter Omtzigt, NSC, með 20 sæti.

Eins og fram hefur komið stýrði Mark Rutte VVD íhaldsflokknum og er hann núverandi forsætisráðherra. Hann hafði gegnt embættinu í þrettán ár en sleit fjögurra flokka ríkisstjórnarsamstarfi vegna ágreinings um innflytjendamál.

Vegna þessa hefur kosningabaráttan í Hollandi að miklu leyti snúist um innflytjendamál. Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins, hefur undanfarin ár verið afar umdeildur en hann hefur lagt sitt af mörkum við að breyta ímynd sinni, að því er fram kemur í umfjöllun miðilsins.

Frelsisflokkurinn hafi minna rætt um „af-íslamsvæðingu“ Hollands að þessu sinni og þess í stað beint spjótum sínum að húsnæðismálum og framfærslu. Talið er næsta víst að langan tíma muni taka að mynda ríkisstjórn í landinu. Meðal þeirra sem hafa óskað Geert Wilders til hamingju með sigurinn er Marine Le Pen, formaður hægriöfgaflokksins Front National. 

Áður hefur Frans Timmermans, leiðtogi Verkamannaflokksins þvertekið fyrir að starfa með Wilders í ríkisstjórn og Pieter Omtzigt, leiðtogi NSC, einnig útilokað það. Yesilgöz-Zegerius, leiðtogi íhaldsflokksins VVD, hefur ekki útilokað samstarf við Frelsisflokkinn en segir útilokað að Geert verði forsætisráðherra.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×