Erlent

For­seta­tíð Geor­ge Weah senn á enda

Atli Ísleifsson skrifar
George Weah hefur gegnt embætti forseta Líberíu frá árinu 2018.
George Weah hefur gegnt embætti forseta Líberíu frá árinu 2018. AP

Joseph Boakai vann nauman sigur á forsetanum og knattspyrnumanninum fyrrverandi, George Weah, í síðari umferð forsetakosninganna í Líberíu sem fram fóru þarsíðustu helgi. Samkvæmt tölum frá landskjörstjórn hlaut Boakai 20.567 fleiri atkvæði en Weah.

Talsmenn Afríkusambandsins og Bandalags Vestur-Afríkuríkja (ECOWAS) hafa sérstaklega hrósað Weah fyrir að tala fyrir friðsamlegri valdayfirfærslu.

Boakai, sem var varaforseti landsins á árunum 2006 til 2018, í forsetatíð Ellen Johnson Sirleaf, hlaut 50,64 prósent atkvæða í síðari umferð kosninganna, en Weah 49,36 prósent.

Joseph Boakai var varaforseti landsins á árunum 2006 til 2018.AP

Weah viðurkenndi ósigur síðastliðinn föstudag þegar búið var að telja 99,9 prósent atkvæða, en lokatölur voru gerðar opinberar í gær. „Líbería hefur unnið,“ sagði Weah á föstudaginn þegar hann var búinn að ræða við Boakai og óskað honum til hamingju með sigurinn.

Weah hefur gegnt forsetaembættinu árið 2018. Hann varð fyrsti afríski knattspyrnumaður til að verða valinn knattspyrnumaður ársins hjá FIFA árið 1995, en á knattspynuferli sínum spilaði hann meðal annars með liðum á borð við Monaco, Paris St Germain og AC Milan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×